„Það á ekkert 13 ára barn að hafa einhverja 100 þúsund kalla til að eyða“

Helga Margrét fermdist fyrir rúmlega tíu árum en væri til …
Helga Margrét fermdist fyrir rúmlega tíu árum en væri til í svipaðar fermingargjafir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Margrét Agnarsdóttir, laganemi, dansari og áhrifavaldur, fermdist árið 2012 í Háteigskirkju. Hún er ánægð með ferminguna sína og væri til í að halda aftur bleika veislu með servéttum með nafninu sínu. Hún sér þó aðeins eftir því hvernig hún eyddi fermingarpeningunum.

„Þrettán ára Helga var ótrúlega óörugg. Ég átti eftir að finna sjálfstraustið og hélt að það mikilvægasta í heiminum væri að vera sæt og grönn. En ég er samt mjög stolt af henni, hún var að reyna sitt besta. Og þannig séð í persónuleika hef ég ekki breyst mikið, var alltaf mjög ákveðin, elskaði dans og tísku og vildi hafa allt litríkt. Ég held samt að 13 ára ég hefði haldið að ég hefði frekar farið meira út í tískuheiminn heldur en að fara í lögfræði, mig langaði ekkert meira en að verða listrænn stjórnandi hjá breska Vogue man ég,“ segir Helga Margrét þegar hún er spurð hvernig unglingur hún var.

Manstu eftir fermingunni sjálfri eða fermingarfræðslunni?

„Ég er með mjög góðar minningar úr fermingarfræðslunni, nema þegar ég var skömmuð fyrir að haga mér illa þegar við fórum í Vatnaskóg. Ég man að mér fannst hún mjög skemmtileg og var alls ekki jafn langdregin og þung eins og vinir mínir fengu í öðrum kirkjum. Síðan var mjög gaman í kirkjunni á daginn sjálfan, ég fermdist á sama degi og ein af mínum allra bestu vinkonum, Júlía Sif.“

Móðir Helgu Margrétar tók fermingarmyndirnar
Móðir Helgu Margrétar tók fermingarmyndirnar Ljósmynd/Aðsend

Hélt ræðu

Hvernig var veislan þín?

„Veislan mín var í Golfklúbbi Reykjavíkur. Það var svaka veisla, við buðum allri fjölskyldu og næstum öllum vinum. Við vorum búin að skreyta allt í bleiku, auðvitað. Ég man að mér fannst ótrúlega skemmtilegt að vera með servíettur með nafninu mínu, verð að finna tilefni til þess að gera það aftur. Veitingarnar voru mjög góðar nema við vorum búin að kaupa tvær fermingarkökur frá Myllunni og það voru kokteilávextir og ég var brjáluð enda er það ógeðslegt og satt best að segja er ég enn þá bitur yfir því.“

Það var bleikt þema.
Það var bleikt þema. Ljósmynd/Aðsend

Lést þú ljós þitt skína í veislunni?

„Ég hef aldrei verið þekkt fyrir að vera feimin og athygli var uppáhaldsmáltíðin mín á þessum tíma þannig að ég var vissulega með ræðu, og ég var með myndaalbúm með myndum af mér við innganginn sem fólk gat skoðað en ég kunni ekki á nein hljóðfæri til að spila til að vera með atriði og frekar erfitt að vera með dansatriði í óeðlilega háum hælaskóm.“

Það voru myndir af Helgu Margréti í veislusalnum.
Það voru myndir af Helgu Margréti í veislusalnum. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig voru fermingarfötin þín?

„Ég var í stuttum ljósbleikum kjól frá Dúkkuhúsinu og síðan var ég í fölbleikum 12 sentimetra háum pinnahælum úr Focus-skóbúðinni. Það verður að hafa það í huga að ég fermdist 2012 þannig að ótrúlega háir óþægilegir hælar voru „the it item“. Ég man að mig langaði ekkert meira en í Jeffery Cambell-hælaskóna – sem voru platform-hælar sem voru reimaðir. Ég man að nokkrar stelpur sem voru með mér í fermingarfræðslu fengu svoleiðis, ég var svo afbrýðisöm. Síðan var ég með lítið gullúr frá ömmu minni henni Dóru og var með slæðu frá langömmu minni henni Dagbjörtu. Fannst mjög gaman að hafa smá frá þeim,“ segir Helga og segist sakna mikið Dúkkuhússins og skóbúðarinnar.

Kjólinn keypti Helga Margrét í Dúkkuhúsinu.
Kjólinn keypti Helga Margrét í Dúkkuhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Fór til Ítalíu í mánuð

Manstu hvað þú fékkst í fermingargjöf?

„Ég man að ég fékk svona fimm pör af eyrnalokkum í fermingargjöf frá ættingjum og vinafólki – þótt ég hafi aldrei verið með göt í eyrunum. Held að strákar fái oftar pening og stelpur fái skartgripi, bækur og álíka héðan og þaðan. Fékk auðvitað mjög mikinn pening líka – en ég er klassíska miðjubarnið þannig að ég fékk bara að eiga allan peninginn minn. Frá foreldrum mínum fékk ég mánaðar skólavist í tungumálaskóla úti á Ítalíu sem var ótrúlega skemmtilegt. En ég man að ég fór með peninginn minn út þangað og lifði eins og prinsessa. Síðan fór ég ein til London í lok sumarsins til að heimsækja frænkur mínar og þar fékk ég að eyða fermingarpeningnum mínum án þess að neinn væri að skipta sér af og þetta er ein besta ferð sem ég farið í. Ef ég væri að fermast í dag væri örugglega aftur á óskalistanum að mega fara í mánuð til Ítalíu, það var ótrúlega skemmtileg ferð. Ég myndi klárlega enn þá skreyta salinn minn allan bleikan,“ segir Helga Margrét sem sér ekki eftir neinu nema kannski að hafa eytt öllum fermingarpeningunum.

Hvað finnst þér mikilvægt að fermingarbörn hafi í huga?

„Setjið peninga ykkar inn á lokaða bankabók – plís! Það á ekkert 13 ára barn að hafa einhverja 100 þúsund kalla til að eyða bara í máltíðartilboð á Pítunni og bragðaref á Snælandsvídeó og síðan klára peninginn í Topshop á Oxford Street.“

Veitingarnar voru góðar fyrir utan kokteilávexti í fermingarkökunum.
Veitingarnar voru góðar fyrir utan kokteilávexti í fermingarkökunum. Ljósmynd/Aðsend
Helga Margrét 13 ára.
Helga Margrét 13 ára. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál