Upptekið fólk sækir í netverslun

Þór Sigurðsson eigandi netverslunarinnar kjarni.is sem er eins og verslunarmiðstöð …
Þór Sigurðsson eigandi netverslunarinnar kjarni.is sem er eins og verslunarmiðstöð á netinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þór Sigurðsson, einn af eigndum vefverslunarinnar kjarni.is, segir að verslunarmynstur sé að breytast á Íslandi eins og víðast hvar erlendis. „Á undanförnum árum hefur orðið meiri vöxtur í almennri netverslun en hinni hefðbundinni verslun. Líklegasta skýringin er sú að neytandinn hefur minni tíma en áður til að versla í hefðbundnum verslunum en að sama skapi veltir hann meira fyrir sér verði og gæðum þeirrar vöru sem kaupa á. Þó svo að oftast sé stutt í næstu verslun hefur það ekki teljandi áhrif á almenna netverslun. Fólk er í auknum mæli að nýta sér þann kost sem netverslun hefur og láta senda vöruna heim að dyrum.“

Kjarni er íslensk verslunarmiðstöð á netinu með miklu úrvali verslana. „Við erum komnir með um 450 íslenskar netverslanir á einum stað. Vefsíðan, sem var opnuð fyrir um ári, er nú komin í nýjan búning og mun öflugri en áður,” segir Þór.

Meiri netverslun en áður

Hann segir að netverslun sé að aukast ár frá ári, bæði hafi fjölgað nýjum netverslunum og einnig kaupi fólk fjölbreyttari vörur núna en áður. „Það er mun einfaldara og ódýrara núna en áður var að koma upp netverslun og fólk er óhrætt við að opna nýja verslun. Flestar netverslanir eru með mikið vöruúrval sem er virkilega gaman að sjá og eigendur netverslana óhræddir við að taka inn nýjar og óþekktar vörutegundir. Eitthvað er samt um að opnaðar séu netverslanir með sérvöru, þar sem seldar eru t.d. ein til þrjár vörutegundir.“

Þór segir að verslun með fatnað, skó og íslenska hönnun á netinu hafi á undanförnum árum aukist til muna. Þá hafi mikil vitundarvakning orðið með samanburð á verði og gæðum á vörum. „Netverslanir í dag eru í flestum tilfellum með mjög góðar lýsingar á vörunni sem þær eru að selja. Þetta gerir neytandann öruggari með að hann kaupi þá stærð sem passar, t.d. föt og skó.“

Jólaverslun meiri á netinu

„Jólainnkaup á netinu eru í auknum mæli að taka við hinum hefðbundnu verslunarferðum fyrir jólin þar sem gengið er búð úr búð til að finna réttu gjöfina. Mörgum finnst þægilegra að kaupa á netinu í símanum og tölvunni í stað þess að fara í stressið í verslunarmiðstöð. Fólk gefur sér meiri tíma en áður í að skoða vörur og taka ákvörðun. Einnig virðist sem almenningur sé fyrr á ferðinni að kaupa jólagjöfina á netinu en ef það verslar í hefðbundinni verslun,” segir Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál