Pils, piparmeyjar og -sveinar

Guðrún Kvaran skrifar um piparmeyjar, piparsveina og pils í hugleiðingu …
Guðrún Kvaran skrifar um piparmeyjar, piparsveina og pils í hugleiðingu sinni í bókinni Konan kemur við sögu. mbl.is/Jóra Jóhannsdóttir

Fræðimaðurinn Guðrún Kvaran er sá fræðimaður sem hefur svarað flestum spurningum á Vísindavefnum eða fleiri en 1000 svörum. Hún skrifar nokkrar sögur í bókinni Konan kemur við sögu, sem gefin er út af Árnastofnun. Smartland fékk að birta eina frásögn úr bókinni sem heitir Pils, piparmeyjar og -sveinar:

Fáir velkjast í vafa um merkingu hvorugkynsorðsins pils. Samkvæmt Íslenskri orðabók er pils ʻkvenflík, neðri hluti kjóls eða flík sem svarar til hansʼ. Í fornu máli var pils notað um einhvers konar ullarskyrtu. Sama merking var í smækkunarorðinu pilsungur. Í nútímamáli merkir pilsungur aftur á móti ʻstutt pilsʼ. Í fornmálsorðabók er pils einnig sagt merkja ʻstakkurʼ:

  • Ánn var svá búinn hversdagliga at hann var í hvítu pilzi; þat var svá sítt at þat nam hæl; þá var hann í grám pilzungi, hann tók ofan á miðjan kálfann.

Pils er notað í nýnorsku í merkingunni ʻundirkjóll, nærpilsʼ og í miðlágþýsku eru til myndirnar pels og pils í merk. ʻloðfeldurʼ. Orðin eru sótt til latínu, pellis ʻfeldurʼ, og er þannig tökuorðið pels ʻloðfeldurʼ skylt pils.

Pils er nokkuð algengt í orðatiltækjum. Talað er um að „kona sé kerling í pilsinu sínu“ ef hún er ákveðin. Sumir tala um að „kona sé í pilsinu sínu“ ef hún stendur vel fyrir sínu. „Að fara ekki í pils einhverrar konu“ er notað þegar kona þykir röggsöm og dugleg. Talað er um að „það blási í pilsin á konu“ ef mikill gustur er á henni. Þá er talað um að „kona sé laus í pilsi“ ef hún þykir léttúðug og laus í rásinni. Sá sem er einhverri konu mjög háður er sagður „hanga í pilsunum“ hennar.

Pils er stundum notað í niðrandi orðum um karlmenn og konur. Til dæmis er pilsaveiðari sá sem er upp á kvenhöndina, pilsaglenna er léttúðug kona, og sama á við pilsagálu og pilsaskeglu, en pilsvargur er kvenskass.

   – – – – –

Um orðin piparmey og piparsveinn er því oft haldið fram, og það með réttu, að munur sé á blæ orðanna

Heimildir um piparsveininn eru mun eldri og að minnsta kosti frá 16. öld. Orðið er fengið að láni úr dönsku, pebersvend, og var þar notað um ógifta farandsala sem versluðu með ýmsan smávarning, einkum pipar. Þeir voru aufúsugestir og áttu oft vinkonur í mörgum sveitum. Hérlendis fer orðið að eiga við ógifta karlmenn, sem voru í lausamennsku, andstætt húsmanni sem var heimilisfastur á bæ. Ekkert niðrandi var við orðið piparsveinn í upprunalegu merkingunni, og enn er það hlutlaust eða fremur sagt í jákvæðu gamni um ungan og eftirsóttan, ókvæntan karlmann, þótt einnig megi heyra það notað um eldri mann. 

Orðið piparmey er einnig fengið að láni úr dönsku, pebermø, og lagað eftir orðinu piparsveinn, en það er miklu yngra í málinu. Sennilega er það ekki eldra en frá síðari hluta 19. aldar. Piparmey hefur jafnan verið notað í niðrandi merkingu um eldri, ógifta konu. Sama er að segja um piparjómfrú sem er álíka gamalt og einnig úr dönsku, peberjomfru.

Piparkerling og piparkarl eru yngst og sennilega frá því í byrjun 20. aldar. Þau eru bæði notuð í niðrandi merkingu, þó ekki jafn sterkri um karlinn. Sem sagt: það er í lagi að vera piparsveinn, og jafnvel dálítið kitlandi, en mun síðra er að vera piparmey.

Guðrún Kvaran.
Guðrún Kvaran.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál