Hugmyndir kviknuðu í trúlofunarferðinni

Ljósmynd/Saga Sig

Splunkuný lína frá Orrifinn Jewels mun formlega líta dagsins ljós á morgun. Línan kallast Milagros eða kraftaverk á íslensku. Helga Guðrún Friðriksdóttir segir að þau hafi fengið magnaðan innblástur fyrir línuna þegar þau ferðuðust um Mexíkó og Perú. Þess má geta að þau trúlofuðu sig einnig í ferðinni og færði Orri Helgu Guðrúnu guðdómlegan demantshring með svörtum demanti þegar hann bað hennar. 

Helga Guðrún Friðriksdóttir, eigandi Orrifinn Jewelry.
Helga Guðrún Friðriksdóttir, eigandi Orrifinn Jewelry. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frétt af Smartlandi: Kom á óvart með svörtum demanti

„Við Orri fórum sem sagt í reisu til Mexíkó og Perú í fyrra og urðum fyrir miklum hughrifum og innblæstri. Við vorum dugleg að heimsækja hof og fornleifar frá samfélögum Azteca og Maya í Mexíkó og Inka í Perú og maður fékk í raun hugmynd að skarti í hverju skrefi. Eftir að við komum til baka og byrjuðum að vinna úr hugmyndunum urðu áheitagripirnir mexíkósku ofan á og við unnum nýju skartgripalínuna aðallega út frá þeim,“ segir Helga Guðrún Friðriksdóttir, eigandi Orrifinn-skartgripamerkisins sem hún rekur ásamt tilvonandi eiginmanni sínum, Orra Finnbogasyni.

Helga Guðrún segir að í Mið- og Suður-Ameríku séu gripirnir kallaðir Milagros en það er líka spænska orðið yfir kraftaverk.

„Þetta eru litlir munir sem fólk leggur á altari eða helgan stað, heitir á og biður fyrir einhverju eða einhverjum. Áheitagripirnir eru gjarnan í formi líkamshluta eða líffæra því oft vill biðjandinn kalla eftir bata af líkamlegu eða andlegu meini. Táknið getur verið bókstaflegt en þarf ekki að vera það. Ef hjarta er til dæmis lagt á helgan stað má biðja um bata af líkamlegu hjartameini en líka um bata af ástarsorg. Við heilluðumst mikið af þessum sið en vorum líka undir áhrifum frá heimsókn í katakómbu eða neðanjarðargrafhýsi í Perú þar sem raunverulegum mannabeinum var raðað upp í alls konar form og mynstur. Mannabeinin hafa svo mikið aðdráttarafl þegar þau eru notuð á svona óhefðbundinn hátt, þeim er raðað eins og um listaverk sé að ræða og einstaklingurinn er ekki lengur aðalatriðið heldur heildin. Útkoman urðu skartgripir í formi handleggsbeina, rifbeina, hryggjarsúlu og hjarta úr gulli en okkur fannst enginn annar málmur koma til greina fyrir sjálft hjartað,“ segir Helga Guðrún. 

Í tilefni af útgáfunni tók Saga Sig ljósmyndari seríu af myndum sem þau munu sýna ásamt skartinu sjálfu á Jacobsen-loftinu á morgun kl. 19.00. Lesendur Smartlands eru velkomnir í teitina. 

Ljósmynd/Saga Sig
Ljósmynd/Saga Sig
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál