Hryllilegasti hrekkjavökubúningurinn?

Nína Sif Pétursdóttir ákvað að taka hrekkjavökuna nokkrum skrefum lengra og má segja að hryllilegri búninga sé varla hægt að skapa. Hún útbjó óléttubúning á Elísu Ástu, 10 ára dóttur sína, og var hryllingurinn í forgrunni.

Nína Sif Pétursdóttir.
Nína Sif Pétursdóttir.

Nína er 34 ára en árið 2004 lærði hún förðun hjá NoName. Hún hefur aldrei unnið við fagið en förðunarfræðin kemur þó að góðum notum á stundum eins og þessum. Hún á þrjár dætur og þegar mikið liggur við á hún það til að sýna listræna hæfileika sína. 

„Búningurinn fékk flottar viðtökur. Fólki fannst þetta alveg einstaklega hræðilegt sem var akkúrat það sem við vildum. Flest viðbrögðin voru eins eða einfaldlega „„ojjjj“,“ segir hún og hlær. 

Þegar mæðgurnar fóru að huga að hrekkjavökubúning kom Google til bjargar.

„Við vorum að spá hvað stelpan gæti verið á hrekkjavökunni og ákváðum að fá smá aðstoð frá Google til að fá einhverjar hugmyndir. Að sjálfsögðu googluðum við allt það hræðilegasta en fundum ekkert sem okkur leist nógu vel á fyrr en við rákumst á mynd af óléttri zombie,“ segir hún.  

„Það skipti máli að búningurinn væri fljót gerður þar sem hann var hugsaður fyrir hrekkjavökuball í skólanum og þar sem ég er að vinna til rúmlega fjögur og böllin byrja vanalega kl. 17.00 þá var möst að búningurinn væri ekki of flókinn.

Hér er Nína að útbúa búninginn á dóttur sína.
Hér er Nína að útbúa búninginn á dóttur sína.

Við vorum búnar að undirbúa okkur með því að útbúa bumbu og kaupa ódýran kjól í Hertex, nytjamarkaði. Við fundum svo dúkku á 200 kr. í Góða hirðinum.

Til þess að búa til bumbuna þá notaði ég upp blásna blöðru og setti svo á hana gipsrenninga sem ég keypti í apóteki, en naflastrengurinn er einnig gerður úr gipsi. Ég braut gipsið síðan til þess að naflastrengurinn yrði hreyfanlegur og raunverulegri,“ segir Nína. 

„Ég setti sex göt á bumbuna til að getað bundið bumbuna þannig að hún yrði kyrr, en síðan málaði ég hana að innan með rauðum lit og litaði tusku með rauðu og sullaði nægum rauðum lit í hana til þess að búa til innyfli. Bumban kom síðan að góðum notum þar sem Elísa notaði hana einnig sem veski og geymdi dót í henni á meðan á ballinu stóð,“ segir hún. 

Nína málaði Elísu Ástu í framan með hvítum augnskugga til að gera hana fölari. Svo notaði hún bláan og bleikan augnskugga til að búa til mar á andlitið. 

„Svo þurfti bara að skvetta rauðum lit hingað og þangað og svo aðeins meiri lit og þá var ein óléttu zombie tilbúin,“ segir hún og brosir.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál