Frá Tiffany og Co. yfir á Skólavörðustíginn

Orri Finnbogason og Helga Guðrún Friðriksdóttir reka fyrirtækið Orrifinn.
Orri Finnbogason og Helga Guðrún Friðriksdóttir reka fyrirtækið Orrifinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skartgripafyrirtækið Orrifinn Skartgripir fagnar fimm ára afmæli í ár og því tilefni hafa þau Helga Guðrún Friðriksdóttir og Orri Finnbogason hannað sérstaka viðhafnarlínu sem er úr 18 karata gulli og hlaðin demöntum. Þar er Orri á heimavelli en hann vann við demantaísetningar fyrir Rolex og Tiffany & Co. í New York. 

„Okkur hefur lengi dreymt um að smíða meira úr gulli og nota meira af demöntum og okkur fannst afmælið tilvalið tilefni til að láta þann draum rætast.

Við völdum uppáhaldshálsmenin okkar og -hringa og erum núna undanfarnar vikur búin að vera á fullu að smíða viðhafnarútgáfur af þeim. Við völdum að nota hvorki meira né minna en 18 karata gull. Venjulega nota íslenskir gullsmiðir 14 karöt en við hugsuðum að nú væri tækifærið til að fara alla leið. Svo hrúgum við demöntum í gripina, það er ekkert til sparað,“ segir Helga Guðrún sem er í óðaönn að skipuleggja sýningu á gripunum sem verður á fimmtudaginn milli 17 og 20 í verslun þeirra við Skólavörðustíg 17a. 

Þegar þau Orri og Helga Guðrún, sem eru hjón, eru spurð hvað drífi þau áfram í sköpuninni segja þau að það sé gleðin við að vinna við það sem þeim þyki gaman.  

„Það eru einfaldlega svo mikil forréttindi að hafa náð að skapa sér þann farveg að geta unnið við það sem maður hefur gaman af. Það er drífandi að vera starfsmaður hjá sjálfum sér og aldrei skemmtilegra en þegar maður er að skapa nýtt og vinna úr hugmyndum. Að hanna og vinna með höndunum er á einhvern hátt heilandi, það fylgir því jákvæð orka að fara í gengum ferlið að vinna úr hugmynd yfir í fullgerðan grip.“

Orri flutti ungur til New York og gerði þar samning við fyrirtæki sem sá um demantaísetningar fyrir stærstu úra- og skartgripamerkin þar í landi.

„Samningurinn var að hann myndi byrja sinn feril hjá þeim sem demantahlaupari, sem þýðir að flytja demanta og afhenda vörur alsettar demöntum. Þetta var vægast sagt áhættusamt starf sem fylgdi mikil ábyrgð og bókstaflega hræðsla um líf sitt þar sem ofbeldisfull rán voru framin til að ná góssinu af hlaupurum. Orri slapp sem betur fer vel frá starfinu og eftir tvö ár fékk hann að byrja að nema ísetningu demanta. Hann vann við demantaísetningu í átta ár, setti demanta í Tiffanys-skart og Rolex-úr svo eitthvað sé nefnt,“ segir Helga. 

Finnið þið fyrir auknum áhuga á dýrari skartgripum?

„Við finnum vissulega fyrir áhuga á gulli og demöntum almennt, við erum ekkert svo viss um að það sé meira eða minna núna en áður. Málið er að gull er klassískt, það er alltaf fallegt og endist að eilífu. Það sama gildir um demanta, gripir sem eru gerðir úr svona efnum og gerðir í höndunum eru sérstakir og hafa mikið gildi sem gerir það að verkum að fólk á þá alla ævi og lætur þá ganga í erfðir sem er mjög fallegt og rómantískt.“ 

Hér mætast 18 karata gull og demantar.
Hér mætast 18 karata gull og demantar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Akkeri úr 18 karata gulli.
Akkeri úr 18 karata gulli. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál