„Ég hugsa ekki meira um útlitið en aðrir“

Bakarinn og sjónvarpskokkurinn Jói Fel við grillið, en þar líður …
Bakarinn og sjónvarpskokkurinn Jói Fel við grillið, en þar líður honum einna best.

Bakarinn og sjónvarpskokkurinn Jói Fel er í góðu formi enda búinn að æfa stíft í 30 ár og aldrei tekið sér pásu. Hann lifir þó engu meinlætalífi og getur varla lifað nema að fá steik einu sinni í viku. Hann veit hvernig best er að elda þær og er nú búinn að skrifa 400 blaðsíðna grillbók, Grillað með Jóa Fel, sem á án efa eftir að gleðja matmenn og konur.

Hugsar þú mikið um útlitið?

Ég hugsa ekki meira um útlitið en aðrir, en ég hugsa mjög mikið um heilsuna. Ég hef alltaf borðað hollan og góðan mat, því meira sem ég borða því meira þarf ég að æfa. Allt sem kemur inn þarf að fara aftur út og það gerist eingöngu með góðri hreyfingu. Ég nota ekki neinar snyrtivörur nema þetta venjulega hjá karlmönnum. Maður þarf víst að raka sig og lykta vel. Það eru einu snyrtivörurnar sem ég nota.

Hvað gerir þú til að láta þér líða betur?

Ég hef mikið að gera alla daga enda í mjög mörgum verkefnum og með stórt fyrirtæki. Ég reyni að slaka vel á um helgar, elda góðan mat með góðu fólki, þannig líður mér best og get farið ánægður inn í næstu viku og verkefni.

Stundar þú líkamsrækt og hvað þá?

Ég hef stundað líkamsrækt í næstum 30 ár og aldrei hætt eða tekið mér hvíld. Ég er af gamla skólanum, mæti bara í ræktina og tek vel á því. Ég mæti fimm sinnum í viku og er í um það bil tvo klukkutíma í senn. Ég enda hverja æfingu á góðri gufu. Ræktin gefur mér orku og kraft, það er alveg öruggt að til að fá meiri orku þarf að æfa og borða hollan mat.

Hvað er það eftirminnilegasta sem hefur gerst í leikfimissalnum?

Ég man eftir einu góðu atriði sem gerðist fyrir sirka 25 árum. Ég var að æfa með Jóni Páli heitnum, en hann var að fara taka þátt í keppninni um sterkasta mann heims. Lóðin sem voru á staðnum voru ekki nægilega þung þannig að ég og tveir aðrir þungir menn þurftum að setjast ofan á fótapressuna svo hann gæti tekið almennilega á því, en þess má geta að auðvitað vann hann mótið.

Hverju gætir þú ekki verið án?

Það er svo margt í lífinu sem ekki er hægt að vera án. Tæknin er alveg að fara með mann þannig að síminn og tölvan verða að vera við höndina. Svo verð ég að fá góða steik einu sinni í viku.

Hvað ætlar þú að gera í ellinni?

Ég er þegar orðinn gamall og tek hverjum degi fagnandi. Ég hlakka til að vakna á morgun og takast á við enn einn daginn. Þannig á ellin að vera, vakna hress og geta gengið út í lífið, það er víst ekki allir sem ná því, því miður.

Jói Fel ásmat Unni Gunnarsdóttur, eiginkonu sinni.
Jói Fel ásmat Unni Gunnarsdóttur, eiginkonu sinni. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál