Grétar Steinsson á óskalista Teits Þórðarsonar

Grétar Steinsson í bikarleik gegn Þór á Akureyri í sumar.
Grétar Steinsson í bikarleik gegn Þór á Akureyri í sumar. Morgunblaðið/Skapti

Vefsíða norska blaðsins Bergens avisen segir í dag frá áhuga Teits Þórðarsonar á því að fá Siglfirðinginn Grétar Steinsson frá ÍA til Brann í Bergen. Teitur þjálfar Brann sem kunnugt er og bróðir hans Ólafur Þórðarson þjálfar ÍA. Haft er eftir Teiti í fréttinni, að Brann geti væntanlega ekki gengið að kröfum ÍA, sem Teitur segir að vilji minnst fá 22 milljónir íslenskra króna fyrir þennan efnilega miðjumann. Grétar sagði í samtali við mbl.is í morgun, að það væri ekki á dagskrá hjá sér að halda utan næsta árið, þar sem hann hyggst klára nám sitt við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi á vori komanda.

Á norska vefnum segir, að Grétar sé ofarlega á óskalista Brann og að Teitur muni fara til Danmerkur að fylgjast með 21 árs landsleik Dana og Íslendinga, í byrjun október. Ennfremur er sagt frá áhuga ýmissa annara evrópskra liða, á því að fá piltinn í sínar raðir, sem leikið hefur með 21 árs landsiði Íslands í sumar. Grétar er aðeins 19 ára gamall, en er engu að síður einn mikilvægasti hlekkurinn í keðju Skagaliðsins, sem situr á toppi Símadeildarinnar. Grétar, sem er nýbúinn að skrifa undir 2 1/2 árs samning við Skagamenn, segir að Brann hafi ekki sett sig í samband við hann og hann hafi ekki vitað af þessum áhuga þeirra. Hann bætti því við að hann væri ekkert að velta þessum hlutum fyrir sér, sérstaklega ekki á meðan tímabilið hér heima væri í fullum gangi. "Atvinnumennska er það sem maður stefnir að í framtíðinni en ég ætla fyrst að festa mig í sessi sem góður leikmaður. Ég mun ekki rjúka til útlanda, bara til þess að fara í atvinnumennsku. Það er ekki spennandi að drífa sig út og koma kannski heim aftur eftir tvö ár."
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert