Leikur FH og Vals ekki færður

Leikur Íslandsmeistara FH og Vals í næstsíðustu umferð Landsbankadeildarinnar fer fram á sama tíma og hinir fjórir leikirnir í umferðinni, það er á sunnudaginn kemur klukkan 17. Umræða hefur verið um það síðustu daga hvort leiktímanum yrði breytt og hann færi fram á öðrum tíma en hinir leikirnir, þar sem nánast er um úrslitaleik að ræða, en svo verður ekki.

Ekki eru forsendur fyrir því að breyta leiktímanum á leik FH og Vals að sögn Birkis Sveinssonar, formanns mótanefndar KSÍ, þar sem Skagamenn eiga enn tölfræðilega möguleika á að ná öðru sætinu af Val. Þá er í reglum mótanefndar það ákvæði að leikirnir í tveimur síðustu umferðunum eiga að fara fram á sama tíma.

Ef Valsmönnum hefði tekist að sigra Skagamenn í lokaleik 16. umferðarinnar í fyrrakvöld hefði hins vegar ekkert verið því til fyrirstöðu að færa leik FH og Vals og þá hefði hann væntanlega verið leikinn á mánudegi.

Takist FH-ingum að leggja Valsmenn að velli í Kaplakrika á sunnudaginn tryggja þeir sér Íslandsmeistaratitilinn fjórða árið í röð. Nái Valsmenn hins vegar að sigra eða skilji liðin jöfn, ráðast úrslitin um titilinn í lokaumferðinni laugardaginn 29. september en þá sækja FH-ingar lið Víkings heim og Valur tekur á móti HK.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert