„Þetta er átján stiga leikur“

Frá leik FH og Hauka.
Frá leik FH og Hauka. mbl.is/Jakob Fannar

Spennan er farin að nálgast hættumörk í Pepsídeild karla í knattspyrnu og gæti færst enn nær þeim í kvöld þegar 14. umferð lýkur með fimm leikjum. Þeirra á meðal eru tveir leikir sem teljast mega til stórleikja sumarsins hingað til. Íslandsmeistarar FH geta blandað sér af krafti í titilbaráttuna með sigri á ÍBV í Vestmannaeyjum, og nýliðaslagur Hauka og Selfyssinga að Hlíðarenda snýst nánast um líf og dauða.

Haukar eru fyrir leikinn á botni deildarinnar með sjö stig og hafa enn ekki unnið leik, en Selfoss er með stigi meira. Grindvíkingar hafa svo níu stig, og þessi lið munu eflaust berjast sín á milli um að halda sæti sínu í deildinni.

„Þetta er átján stiga leikur. Eigum við ekki bara að segja það?“ sagði Kristján Ómar Björnsson, leikmaður Hauka, léttur í bragði aðspurður um mikilvægi leiksins. Það lætur nærri lagi, en Kristján var þó fljótur til að draga úr mikilvæginu.„Fyrir mót eru náttúrlega allir leikir jafn mikilvægir og við ætlum okkur náttúrlega ekki bara að vinna Selfoss, heldur öll hin liðin. Í fyrri umferðinni töpuðum við með hvað mest afgerandi hætti gegn Selfyssingum [3:0 á Selfossi] þannig að okkur finnst við kannski frekar eiga inni sigra gegn öðrum liðum. Þetta er ekki alveg „do or die“ leikur en að sjálfsögðu ætlum við okkur þrjú stig og það er mikið sjálfstraust í okkar liði. Við höfum verið að spila vel í fleiri leikjum en Selfyssingarnir þó að þeir eigi stig á okkur,“ sagði Kristján, en þessi tvö lið léku sem kunnugt er bæði í 1. deild í fyrra.

„Leikir liðanna hafa verið hörkuspennandi og skemmtilegir síðustu ár og það er gaman hve margir leikmenn eru enn í báðum liðum þó þau séu komin í úrvalsdeild, þó þeir séu nú fleiri hjá Selfossi. Mér finnst reyndar alveg aðdáunarvert hve margir hjá þeim eru enn í liðinu sem voru að spila í 2. deild með því fyrir nokkrum árum. Það er skemmtilegra að deildin sé ekki bara eins og skiptibókamarkaður Reykjavíkur,“ sagði Kristján.

Eyjamenn stimpluðu sig rækilega inn í Íslandsmótið í 3. umferð þegar þeir unnu 3:2 sigur á FH í Kaplakrika. Síðan þá hefur leiðin legið uppá við hjá þeim en Íslandsmeistarnir eru enn skammt undan. Leikurinn í kvöld er hins vegar lykilleikur uppá framhaldið fyrir FH-inga sem með tapi eru orðnir 10 stigum á eftir ÍBV. KR fær breytt lið Stjörnunnar í heimsókn en besti maður Garðbæinga, Steinþór Freyr Þorsteinsson, var seldur fyrir helgi. Grindavík og Fram eigast við suður með sjó og Fylkismenn taka á móti Keflvíkingum, en bæði Keflavík og Fram eiga möguleika á að komast upp í 3. sætið á kostnað FH.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert