Heil umferð í Pepsí-deildinni

Ívar Björnsson í baráttu við Boga Rafn Einarsson hjá Grindavík …
Ívar Björnsson í baráttu við Boga Rafn Einarsson hjá Grindavík í fyrra. mbl.is/Eggert

3. umferð Pepsí-deildar karla í knattspyrnu verður spiluð í heilu lagi í kvöld. Fimm leikir hefjast klukkan 19:15 en einn klukkan 20:00. Mbl.is ræddi við Ívar Björnsson, framherja Fram, um leiki kvöldsins.

Leikir kvöldsins:

19.15 Fylkir - Fram

19.15 Víkingur- KR

19.15 Þór - Stjarnan

19.15 Keflavík - FH

19.15 Breiðablik - Grindavík

20.00 Valur - ÍBV

Ívar Björnsson er að jafna sig á ökklameiðslum og er á leikskýrslu hjá Fram í kvöld en hann hefur misst af tveimur fyrstu leikjunum. Ívar var sprautaður vegna ökklameiðsla fyrir sex vikum síðan en hann varð fyrir meiðslum í fyrra og þau tóku sig upp á undirbúningstímabilinu. 

Hann er bjartsýnn fyrir leikinn gegn Fylki: „Mótið byrjar ekkert sérstaklega vel hjá okkur en núna þarf eitthvað að gerast. Við erum vel stemmdir og tilbúnir í slaginn. Fylkisliðið hefur virkað á mig eins og Óli Þórðar er. Þeir fara áfram á hörkunni og við þurfum við því að vera yfir í baráttunni. Þetta getur farið hvernig sem er en ég held að við séum með betra fótboltalið en þeir.“ 

Ívar gerir ráð fyrir jafntefli hjá Víkingi og KR.  „Ég held að Víkingarnir muni stríða KR-ingum og ég held að liðin muni gera jafntefli eins og þau gerðu í síðustu umferð.“

Ívar spáir því að stemningin muni hafa sitt að segja hjá Þórsurum: „Þórsararnir taka þetta. Fyrsti leikur á heimavelli í efstu deild í langan tíma og það verða örugglega tvö þúsund manns á vellinum.  Það mun hjálpa þeim í þessum leik.“

„Keflavík - FH er mikilvægur leikur en ég hugsa að FH-ingarnir séu komnir á skrið. Þeir eru komnir á bragðið eftir að hafa unnið meistarana 4:1 og eru sterkir. Þeir spiluðu ekkert sérstaklega vel á móti Blikum en kláruðu dæmið. Það sama gæti verið uppi á teningnum í Keflavík.“

Ívar reiknar með því að Blikarnir nái í sín fyrstu stig: „Þeir verða dýrvitlausir og eru náttúrlega í sömu stöðu og við. Þeir eru á heimavelli og ég á von á því að þeir nái að gíra sig upp,“ sagði Ívar og spáir óvæntum úrslitum á Hlíðarenda: „Ég held að Valsmenn muni springa á limminu og að ÍBV vinni þennan leik. Það er allt of mikið að gerast hjá Valsmönnum þessa dagana og hugurinn líklega ekki alveg til staðar,“ sagði Framarinn Ivar Björnsson við Mbl.is í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert