Í beinni: Þórsarar fallnir, ÍBV í Evrópukeppni

Hnípnir Þórsarar á bekknum í leikslok. Fallnir í 1. deild …
Hnípnir Þórsarar á bekknum í leikslok. Fallnir í 1. deild á ný. mbl.is/Víkurfréttir

Íslandsmótinu í knattspyrnu 2011 er lokið. Lokaumferðin í úrvalsdeild karla í fótbolta, Pepsi-deildinni, fór fram í dag og þar gerðist það að Þórsarar féllu eftir ársdvöl í deildinni, og Eyjamenn hrepptu síðasta Evrópusætið sem var í boði.

Grindvíkingar lögðu ÍBV 2:0 í Eyjum og Fram vann Víking 2:1 á Laugardalsvellinum. Keflvíkingar sigruðu Þór í hreinum úrslitaleik liðanna, 2:1, og þar með voru það Akureyringarnir sem féllu. Þórsarar fára samt í Evrópudeild UEFA þar sem þeir töpuðu bikarúrslitaleiknum gegn Íslandsmeisturum KR.

Stjarnan hefði getað hirt Evrópusætið af ÍBV með sigri gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. Þetta virtist í spilunum eftir að Stjarnan vann upp tveggja marka forskot Blika og jafnaði 3:3 á meðan Grindavík var komin yfir í Eyjum. Guðmundur Pétursson gerði hinsvegar vonir Stjörnunnar að engu þegar hann skoraði sigurmark Blika, 4:3, í uppbótartíma.

FH-ingar gulltryggðu sér annað sætið í deildinni með 5:3 sigri á Fylki í Árbænum. Þar lék Tommy Nielsen, hinn 39 ára gamli miðvörður, kveðjuleik sinn á ferlinum en á níu árum hans með FH hefur liðið aldrei hafnað neðar en í öðru sæti.

Lokastaðan í fallbaráttunni:
Keflavík 24, Fram 24, Grindavík 23, Þór 21, Víkingur 15.

Evrópusætið: ÍBV 40 stig, Stjarnan 37.

Silfrið: FH 44, ÍBV 40.

Smellið á BEIN LÝSING á hverjum leik fyrir sig til að fylgjast nánar með gangi mála þar.

14.00 ÍBV - Grindavík 0:2. BEIN LÝSING - Júlíus G. Ingason. LEIK LOKIÐ
14.00 Fram - Víkingur R. 2:1. BEIN LÝSING - Sindri Sverrisson. LEIK LOKIÐ
14.00 Keflavík - Þór. 2:1. BEIN LÝSING - Skúli Unnar Sveinsson. LEIK LOKIÐ
14.00 Fylkir - FH. 3:5. BEIN LÝSING - Andri Karl. LEIK LOKIÐ
14.00 Breiðablik - Stjarnan 4:3. BEIN LÝSING - Ólafur Már Þórisson. LEIK LOKIÐ
14.00 Valur - KR 0:0. BEIN LÝSING - Stefán Stefánsson. LEIK LOKIÐ

15.56 - Það er ÍBV sem hreppir síðasta Evrópusætið þrátt fyrir tapið gegn Grindavík þar sem Stjarnan náði ekki að sigra Breiðablik. Þórsarar spila í Evrópudeild UEFA þrátt fyrir að þeir leiki í 1. deild.

15.52 - Fram vinnur Víking og þar með er þetta endanlegt. Þórsarar eru fallnir þrátt fyrir að þeir væru aldrei í fallsæti allt sumarið - þar til núna í lok mótsins.

15.50 - Flautað af í Eyjum og Keflavík. Grindvíkingar eru sloppnir, Þórsarar falla, ekkert bjargar þeim héðan af. Guðmundur Pétursson kemur Blikum í 4:3 gegn Stjörnunni og Evrópudraumur Garðbæingar er þar með orðinn að engu.

15.47 - Tryggvi Guðmundsson fær annað tækifæri til að slá markametið - aðra vítaspyrnu - og skýtur yfir mark Grindvíkinga!! Ótrúlegt...

15.40 - Magnús Björgvinsson kemur Grindavík í 2:0 í Eyjum. Ævintýri í uppsiglingu hjá Grindvíkingum, Þórsarar þokast enn nær 1. deildinni og nú getur Stjarnan hirt Evrópusætið af ÍBV með einu marki enn í Kópavogi!! Magnús hefur verið Grindvíkingum dýrmætur undanfarið en þetta er hans fjórða mark í síðustu fimm leikjum þeirra.

15.39 - Þórsarar eru heldur betur í vondum málum. Eins og staðan er núna nægir þeim ekki að jafna í Keflavík, þeir verða að vinna leikinn til að fara uppfyrir Grindvíkinga.

15.37 - Stórar sviptingar. Ólafur Örn Bjarnason þjálfari Grindavíkur skorar í Eyjum, 1:0 gegn ÍBV. Grindavík uppi með þessari stöðu og Þórsarar á leið niður. Stjarnan er skyndilega búin að jafna 3:3 gegn Breiðabliki og þarf nú bara eitt mark enn til að fara í Evrópukeppni. Jóhann Þórhallsson skorar 8. mark leiksins í Árbæ og minnkar muninn fyrir Fylki í 3:5.

15.23 - Arnar Már Björgvinsson skorar aftur fyrir Blika gegn sínum gömlu félögum í Stjörnunni, 3:1. Mörkum rignir áfram í Árbænum því Ólafur Páll Snorrason hefur komið FH í 5:2. Silfrið er í öruggri höfn hjá FH-ingum.

15.20 - Arnar Gunnlaugsson bætir fyrir fyrri vítaspyrnuna gegn Víkingi og skorar þegar Framarar fá aðra slíka á Laugardalsvelli. Hann kemur Fram þar með í 2:1 og færir liðið stóru skrefi nær því að halda sér í deildinni. Hans 82. mark í efstu deild og það sjöunda í sumar.

15.14 - Atli Viðar Björnsson er að tryggja sér skó í einhverjum lit. Hann er búinn að skora aftur fyrir FH í Árbænum og staðan er 4:2. Þrettánda mark Atla í sumar og hann þarf tvö til að skáka Garðari Jóhannssyni en er nú kominn einu framúr Kjartani Henry. Þetta er 75. mark Dalvíkingsins í deildinni frá upphafi.

15.12 - Baldvin Sturluson skorar fyrsta mark seinni hálfleiks og minnkar muninn fyrir Stjörnuna á Kópavogsvelli. Staðan 2:1 fyrir Blika og enn von fyrir Garðbæinga um að ná þriðja sætinu. Þriðja mark Baldvins í sumar.

14.54 - Hálfleikur og hægt að átta sig aðeins á málum. Grindvíkingar eru niðri eins og staðan er núna, en naumt er það. Eitt mark sem munar, Þór og Grindavík jöfn að stigum eins og er. ÍBV virðist með Evrópusætið í höndunum, þó staðan sé 0:0 í Eyjum, þar sem Stjarnan er að tapa 2:0 í Kópavogi. Garðar Jóhannsson er enn nær markakóngstitlinum þó hann hafi ekki skorað. Garðar er með 15 mörk en Kjartan Henry Finnbogason og Atli Viðar Björnsson eru báðir með 12.

14.48 - Ótrúlegar lokamínútur á fyrri hálfleiknum í Árbæ. Björn Daníel Sverrisson kemur FH í 3:1 en Albert Brynjar Ingason svarar um hæl fyrir Fylki, 3:2. Albert með sitt 9. mark í sumar.

14.46 - Tvö mörk FH gegn Fylki á stuttum tíma og Hafnarfjarðarliðið er komið í 2:1. Matthías Vilhjálmsson jafnar með sínu 10. marki í deildinni í sumar og Atli Viðar Björnsson skorar tveimur mínútum síðar, sitt 12. mark. Þeir eru í baráttunni um skóna eftirsóttu. Atli Viðar nær með þessu Kjartani Henry í 2.-3. sæti markalistans.

14.43 - Þrjú mörk á stuttum tíma og Blikar eru skyndilega komnir í 2:0 gegn Stjörnunni. Evrópudraumur Garðbæinga að fjara út. Fyrrum Stjörnumaðurinn Arnar Már Björgvinsson skorar langþráð mark, sitt fyrsta á tímabilinu, og Andri Rafn Yeoman bætir öðru við. Matthías Vilhjálmsson fyrirliði FH-inga jafnar gegn Fylki, 1:1.

14.39 - Björgólfur Takefusa jafnar fyrir Víking gegn Fram og kemur Frömurum á hættusvæðið á ný, 1:1. Fimmta markið hjá þessum magnaða markaskorara í síðustu þremur leikjunum og hans 80. mark í efstu deild frá upphafi. Hvar stæðu Víkingar ef hann hefði verið heill í allt sumar? Nú er Fram aðeins stiginu fyrir ofan Þór og Grindavík og ekkert má útaf bregða. Verður vítaspyrnan sem Arnar brenndi af Frömurum dýrkeypt?

14.27 - Sveinn Elías Jónsson skoraði sitt 8. mark í deildinni í sumar fyrir Þór rétt áðan. Minnkaði muninn í 2:1, og það mark lyftir Þór uppfyrir Grindavík á ný, á markatölu. Þetta getur orðið heldur betur spennandi þegar líður á leikina ef staðan helst svona.

14.18 - VÍTI KLÚÐRAÐ! - Annar reynslubolti klúðrar vítaspyrnu á sömu stundu í Laugardalnum. Arnar Gunnlaugsson tekur víti fyrir Framara en Magnús Þormar ver frá honum!!

14.18 - MARK OG VÍTI KLÚÐRAÐ! - Tryggvi Guðmundsson tekur vítaspyrnu fyrir ÍBV en Óskar Pétursson ver frá honum. Sveinn Elías Jónsson minnkar muninn fyrir Þór í 2:1.

14.16 - MARK Í KEFLAVÍK - Keflvíkingar eru komnir í 2:0 og eins og staðan er núna er Þór niðri í 1. deild. Jóhann B. Guðmundsson skorar sitt sjötta mark í sumar.

14.14 - MÖRK Í KEFLAVÍK OG ÁRBÆ - Magnús S. Þorsteinsson kemur Keflavík yfir í fallslagnum gegn Þór, 1:0. Þriðja mark hans í sumar og mark í öðrum leiknum í röð. Fylkir er kominn yfir gegn FH í Árbænum, 1:0. Davíð Þór Ásbjörnsson skorar.

14.04 - MARK Á LAUGARDALSVELLI - Fyrsta mark dagsins Steven Lennon kemur Fram yfir strax á 4. mínútu. Þessi enski strákur hefur heldur betur verið Safamýrarliðinu dýrmætur. Fimmta markið hans og hann hefur þátt í flestum öðrum sem liðið hefur skorað í seinni umferðinni. 1:0. BEIN LÝSING - Sindri Sverrisson.

14.00 - Leikirnir eru byrjaðir. Hvar kemur fyrsta markið? Grindavík er niðri eins og staðan er í byrjun leikjanna.

13.58 - Sigurbjörn Hreiðarsson er í liði Vals gegn KR á Hlíðarenda og spilar sinn 240. leik með félaginu í efstu deild, sem er að sjálfsögðu félagsmet. Þetta er væntanlega kveðjuleikur Sigurbjörns með Val eftir 20 ára feril og spurning hvort þetta sé síðasti leikur hans í efstu deild.

13.54 - Á Laugardalsvelli er Arnar Gunnlaugsson á ný í liði Fram eftir að hafa misst af síðustu þremur leikjum. Skyldi þetta vera kveðjuleikur hjá þessum litríka fótboltamanni eða framlengir hann enn ferlinn á næsta ári?

13.45 - Í Eyjum er veðrið heldur að versna, segir okkar maður þar, Júlíus G. Ingason. "Fyrr í dag var veður hið þokkalegasta, sól en nokkur vindur. Nú hefur frekar bætt í vindinn og byrjað að rigna talsvert. Völlurinn var blautur fyrir þannig að aðstæður í Eyjum bjóða ekki upp á heimsklassa knattspyrnu. En ef einhver lið kunna á þessar aðstæður, þá mætast þau hér í Eyjum í dag," segir í beinni lýsingu Júlíusar hér á mbl.is: BEIN LÝSING - Júlíus G. Ingason.

13.31 - Í Árbænum er söguleg stund þar sem Tommy Nielsen spilar kveðjuleik sinn með FH. Hann er að ljúka sínu níunda tímabil með Hafnarfjarðarliðinu og hefur átt stóran þátt í glæsilegasta kaflanum í sögu félagsins.

13.24 - Skúli Unnar Sveinsson í Keflavík segir að þar sé ansi hvasst þessa stundina. Völlurinn sé hinsvegar greinilega í mjög góðu standi. BEIN LÝSING - Skúli Unnar Sveinsson.

13.17 - Nú má sjá byrjunarliðin í öllum leikjunum með því að fara inná hverja lýsingu fyrir sig. Okkar menn eru mættir á vellina sex og byrjaðir að hita upp.

Fjögur lið berjast fyrir lífi sínu, Grindavík sem er með 20 stig, Þór, Fram og Keflavík sem eru með 21 stig hvert.

ÍBV og Stjarnan berjast um 3. sætið í deildinni sem gefur fjórða og síðasta Evrópusætið á næsta tímabili. KR, FH og Þór leika í Evrópukeppni.

FH og ÍBV berjast um silfurverðlaunin í deildinni. KR er þegar orðið Íslandsmeistari og mun fagna því sérstaklega með stuðningsmönnum sínum í dag og kvöld. Sigurhátíð er í bígerð á Eiðistorgi og Rauða ljóninu.

Garðar Jóhannsson úr Stjörnunni á alla möguleika á að verða markakóngur í deildinni. Hann hefur skorað 15 mörk fyrir lokaumferðina en Kjartan Henry Finnbogason úr KR er næstur með 12. Nema einhver "taki Takefusa" á þetta og raði inn mörkum í dag!

Kristinn Jakobsson og leikmenn Þórs og Keflavíkur klárir í slaginn …
Kristinn Jakobsson og leikmenn Þórs og Keflavíkur klárir í slaginn fyrir leikinn í dag. mbl.is/Víkurfréttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert