KA skellti Eyjamönnum

Jóhann Helgason skoraði tvö mörk fyrir KA í dag.
Jóhann Helgason skoraði tvö mörk fyrir KA í dag. mbl.is/Jakob Fannar

Fyrstudeildarlið KA lagði úrvalsdeildarlið ÍBV að velli, 2:1, í síðasta leiknum í 2. riðli deildabikars karla í fótbolta, Lengjubikarsins, á Leiknisvellinum í dag.

KA fór þar með uppfyrir ÍBV og endaði í 5. sæti riðilsins með 10 stig en ÍBV var með 9 og þar fyrir neðan voru ÍR með 3 stig og Tindastóll með eitt stig. Keflavík með 18, ÍA með 16, Víkingur R. með 12 og Stjarnan með 11 urðu í fjórum efstu sætunum. Keflavík og ÍA fara áfram en taki Skagamenn ekki sæti í 8-liða úrslitunum, eins og útlit er fyrir, fara Víkingar áfram í þeirra stað.

Jóhann Helgason, sem kom á ný til KA í vetur eftir nokkurra ára dvöl í Grindavík, skoraði bæði mörk Akureyrarliðsins í dag - sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok. Aaron Spear jafnaði inná milli fyrir ÍBV sem missti Þórarinn Inga Valdimarsson af velli með rautt spjald í lok leiksins.

Fylkir vann Hött, 3:1, í lokaleiknum í 3. riðli keppninnar sem fram fór á Fellavelli á Fljótsdalshéraði í dag. Fylkir endaði þar með í 6. sæti riðilsins með 7 stig en fyrir neðan voru Fjölnir með 5 stig og Höttur með 3 stig. Valur, FH og Þór fóru áfram úr riðlinum en Grindavík og Leiknir R. voru í næstu sætum á eftir.

Elvar Þór Ægisson kom Hetti yfir í fyrri hálfleik í dag en í seinni hálfleik svöruðu Árni Freyr Guðnason, Elís Rafn Björnsson og Ingimundur Níels Óskarsson fyrir Fylki. Skotinn David Elebert lék sinn fyrsta leik með Fylkismönnum í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert