Gerir breytingar út frá stöðunni í Sviss

Hannes Þór Halldórsson að verja á æfingu í dag. Fyrir …
Hannes Þór Halldórsson að verja á æfingu í dag. Fyrir aftan hann bíður Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eva Björk

Lars Lagerbäck sat fyrir svörum fréttamanna í fundarsal á Ullevål-leikvanginum í Ósló í dag. Hann greindi meðal annars frá því að starfslið Íslands myndi fylgjast náið með gangi mála í leik Sviss og Slóveníu meðan á leik Noregs og Íslands stendur í lokaumferð undankeppni HM.

Ísland og Slóvenía bítast um 2. sæti riðilsins sem gæfi sæti í umspili um að komast á HM. Slóvenar eru stigi á eftir Íslandi en með betri markatölu.

Búnir undir að breyta skipulaginu

„Við nálgumst leikinn með því hugarfari að vinna, en við verðum í beinu sambandi við Sviss. Við búum okkur og leikmennina undir það að breyta leikskipulaginu út frá stöðunni þar. Ef Slóvenía væri að vinna og staðan jöfn hjá okkur þá þyrftum við til dæmis að reyna að ná marki,“ sagði Lagerbäck.

„Við spilum alltaf eins og við teljum best. Ég held að það sé ekkert vit í því að gera miklar breytingar á leikskipulaginu. Maður tekur með í reikninginn við hverju maður býst af andstæðingnum og við erum búnir að kortleggja norska liðið vel held ég,“ bætti hann við.

Hann hugsar um fótbolta með svipuðum hætti og ég

Per-Mathias Högmo stýrði norska liðinu í fyrsta sinn gegn Slóveníu á föstudaginn og varð að sætta sig við 3:0 tap í frumrauninni. Hann tók við liðinu af Egil „Drillo“ Olsen, vill blása til sóknar og halda boltanum mun betur en norska liðið hafði gert.

„Ég þekki Per-Mathias og hann er að reyna að gera það sama og hjá Djurgården. Þegar kemur að fótbolta þá hafa menn mismunandi hugmyndafræði. Hann hugsar um fótbolta með mjög svipuðum hætti og ég, en það er erfitt að breyta öllu á nokkrum æfingum. Þannig virkar þetta ekki í fótbolta. Noregur er ekki á þeim stað sem liðið gæti verið á núna,“ sagði Lagerbäck sem var meðal þeirra sem sannfærðu Högmo um að taka við Djurgården.

„Við höfum ekki verið í neinu sambandi síðan hann fékk starfið en þá sendi ég honum skilaboð og sagðist óska honum góðs gengis eftir leikinn við okkur,“ sagði Lagerbäck.

Ferðalögin og peningurinn

Fjöldi erlendra fréttamanna var á fundinum, meðal annars frá Svíþjóð og Englandi. Sænskur blaðamaður vildi vita muninn á því að þjálfa sænska landsliðið og það íslenska.

„Ferðalögin,“ sagði Lagerbäck. „Og peningurinn!“ bætti Heimir Hallgrímsson aðstoðarþjálfari við léttur. Lagerbäck gat þó tekið undir það.

„Við höfum ekki úr sömu fjármunum að spila. Til dæmis þegar við fórum til Kýpur þá urðum við að millilenda í London og eyða sex klukkustundum þar. Það er auðvitað ekki æskilegt. Starfsliðið er ekki jafn fjölmennt og þess vegna stendur Heimir sig frábærlega. Við erum til dæmis ekki með mann í að útbúa myndbönd í greiningu á leikjum svo Heimir hefur bara séð um það,“ sagði Lagerbäck. En hvað með muninn á leikmönnunum?

Hugarfarið greinir þá íslensku frá öðrum

„Þetta er örlítið öðruvísi en samt svipað. Flestir leikmannanna sem ég stýrði hjá Svíþjóð og Nígeríu sýndu ætíð mikla fagmennsku í öllu sem þeir gerðu. En hugarfarið hjá íslensku leikmönnunum, það hvernig þeir vinna saman, og með okkur í þjálfaraliðinu... samstarfið er virkilega gott og betra en ég hef upplifað áður. Þeir eru með mjög gott hugarfar, rétt eins og þeir eru góðir leikmenn,“ sagði Lagerbäck.

Alveg til í að vinna Svía

Svíar hafa þegar tryggt sér sæti í umspili og sú staða gæti komið upp að Lagerbäck stýri Íslendingum gegn löndum sínum.

„Sem Svíi þá vil ég auðvitað ekki koma í veg fyrir að Svíþjóð komist á HM, sérstaklega þegar við erum ekki einu sinni komnir í umspilið og ekki búið að draga, en frá  knattspyrnulegu sjónarmiði þá væri ég alveg til í að vinna þá. Ég held mun meira með Íslandi en Svíþjóð í dag. Það yrði ekkert voðalega gaman að slá út Svía, en að vissu leyti yrði það það samt,“ sagði Lagerbäck.

Hann var þá spurður hvernig honum fyndist að koma til Noregs og eiga möguleika á að komast í umspilið, öfugt við Noreg.

Sé ekki að annað liðið sé líklegra

„Það er alveg stórkostleg tilfinning,“ sagði Svíinn léttur. „Við höfum staðið okkur betur en Noregur. Núna erum við líka ekki bara með alla okkar menn heila heldur erum við að verða betri og betri. Leikmennirnir eru allir farnir að spila með liðum sínum og eftir sumarið erum við búnir að spila virkilega góðan fótbolta,“ sagði Lagerbäck, og samsinnti því að „maður gegn manni“ væri íslenska liðið betra en það norska.

„Já, sérstaklega þegar maður horfir til úrslitanna. Ég myndi segja að leikurinn í Reykjavík á milli liðanna [sem Ísland vann 2:0] hafi verið jafn en síðan erum við búnir að spila betur eins og staðan sýnir. Norska liðið vill eflaust sýna að það sé betra en það sýndi í Slóveníu og ég býst við erfiðum leik. Ég sé ekki að annað liðið sé líklegra til sigurs,“ sagði Lagerbäck.

Frá æfingu íslenska liðsins á Ullevål í dag.
Frá æfingu íslenska liðsins á Ullevål í dag. mbl.is/Eva Björk
Emil Hallfreðsson með boltann á æfingunni í dag.
Emil Hallfreðsson með boltann á æfingunni í dag. mbl.is/Eva Björk
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert