„Ungur spennandi leikmaður“

Viðar Örn Kjartansson skrifar undir samninginn við Vålerenga í morgun.
Viðar Örn Kjartansson skrifar undir samninginn við Vålerenga í morgun. Ljósmynd/vif-fotball.no

Kjetil Rekdal þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Vålerenga er mjög ánægður með að hafa náð að krækja í Selfyssinginn Viðar Örn Kjartansson en framherjinn knái, sem skoraði 13 mörk með Fylki í Pepsi-deildinni í sumar, skrifaði í morgun undir þriggja ára samning við norska liðið.

„Við erum virkilega ánægðir að hafa fengið Viðar til okkar. Hann er svo sannarlega markaskorari. Viðar er ungur spennandi leikmaður sem fellur vel inn í okkar hóp,“ segir Rekdal á vef Vålerenga.

Viðari Erni er ætlað á að fylla skarð Torgeir Børven sem er á leið til hollenska liðsins Twente.

„Viðar stóð sig mjög vel þegar hann kom til reynslu í haust og á margan máta er hann mjög líkur leikmaður og Torgeir,“ segir Rekdal en Viðar Örn lék einn æfingaleik með Vålerenga í haust og skoraði þrennu í 10:1 sigri liðsins.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert