Ólafur Páll: Það stórsér á Davíð

Ólafur Páll Snorrason og félagar eru komnir aftur á toppinn.
Ólafur Páll Snorrason og félagar eru komnir aftur á toppinn. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta var smá panikk þarna í lokin, maður vissi ekki alveg hvað var mikið eftir þegar þeir minnkuðu muninn í 3:2, en sem betur fer náðum við að sigla þessu í land,“ sagði Ólafur Páll Snorrason sem lagði upp öll mörk FH í sigrinum á Víkingi í Pepsi-deildinni í kvöld.

Staðan var jöfn, 1:1, þar til skammt var til leiksloka en Víkingar höfðu þá misst Ventsislav Ivanov af velli með rautt spjald.

„Ég er mjög ánægður eftir þennan erfiða leik gegn Víkingi. Við vorum með ákveðna taktík í leiknum og þolinmæði hefur alltaf verið hluti af okkar leikstíl. Við höfum oftar en ekki skorað á síðustu mínútunum eða jafnvel síðustu sekúndunum og vitum alltaf að við eigum möguleika. Við erum með frábæra leikmenn í liðinu,“ sagði Ólafur Páll en það var varamaðurinn Atli Viðar Björnsson sem kom FH yfir þegar skammt var eftir.

„Hann klikkaði ekki í dag. Það er hægt að treysta á hann alla daga vikunnar,“ sagði Ólafur Páll. Aðspurður um spjöldin sem Ivanov fékk, gult fyrir leikaraskap og annað gult og þar með rautt fyrir brot á Davíð Þór Viðarssyni, sagði Ólafur Páll:

„Ég veit ekki, dómarinn sér um að dæma leikinn og að mínu mati var þetta réttlætanlegt. Hann fór fullharkalega í Davíð í seinna atvikinu, og setti olnbogann í hann að mér sýndist. Það stórsér á Davíð eftir þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert