Finnur: Mikill stormur í hausnum síðustu daga

Finnur Orri í búningi FH.
Finnur Orri í búningi FH. Ljósmynd/fh.is

Það er búinn að vera mikill stormur í hausnum á mér undanfarna daga,“ sagði Finnur Orri Margeirsson, fráfarandi fyrirliði Breiðabliks, sem í dag skrifaði undir samning til þriggja ára við FH og mun því leika með FH-ingum á næstu leiktíð í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.

Finnur Orri var orðinn samningslaus hjá Breiðabliki en hefur undanfarna daga og vikur reynt að velja á milli þriggja möguleika; að halda kyrru fyrir eða semja við FH eða KR.

„Ég tel þetta vera rökrétt skref fyrir mig. Þessi ákvörðun byggist á fótboltalegum forsendum. Ég er að fara í umhverfi og kerfi hjá FH sem er búið að sanna sig í gegnum árin. Þeir eru með mjög sterkan hóp sem gerir það að verkum að maður þarf að þrýsta á sjálfan sig og vera alltaf á tánum, sem ýtir manni í átt til framfara. Það er það sem maður leitar eftir. Stundum þarf maður að breyta til og það getur verið hollt fyrir alla,“ sagði Finnur.

Leysir Hólmar af hólmi

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sér Finn fyrir sér sem arftaka Hólmars Arnar Rúnarssonar á miðjunni hjá liðinu.

„Það er svo undir mér komið að standa mig og sýna að ég geti spilað í hans stöðu í þessu liði,“  sagði Finnur. Hann er uppalinn Bliki og hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár, svo ákvörðunin um að kveðja Smárann var ekki auðveld.

„Það er búinn að vera mikill stormur í hausnum á mér undanfarna daga. Það er aldrei auðvelt að fara þaðan sem manni líður vel og þekkir vel til. Maður tengist tilfinningalegum böndum þarna inn, svo þetta var alls ekki auðvelt. En ég held að þetta hafi verið nauðsynlegt,“ sagði Finnur, sem er 23 ára og hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands. Hann stefnir á að taka skrefið út í atvinnumennsku á næstu árum.

Horfir til atvinnumennsku

„Ég hef alveg hugsað þetta skref út frá því að þetta gæti verið leið til að komast frekar í atvinnumennsku. Vonandi gengur það upp,“ sagði Finnur. Hann átti einnig í viðræðum við KR eins og áður segir.

„Ég hitti KR-inga og við ræddum málin. Að sjálfsögðu var það spennandi og heillaði mig alveg en á endanum varð FH fyrir valinu,“ sagði Finnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert