Varla kynnst öðrum eins aga og hjá Íslandi

Pavel Vrba hefur farið frábærlega af stað sem landsliðsþjálfari Tékka.
Pavel Vrba hefur farið frábærlega af stað sem landsliðsþjálfari Tékka. AFP

„Auðvitað er mjög sérstakt að spila þrjá leiki, vinna þá alla og fá ekki á sig mark. Þetta er mjög athyglisverður árangur,“ sagði Pavel Vrba, þjálfari Tékklands, um Ísland á fréttamannafundi kvöldið fyrir leik þjóðanna um toppsæti A-riðils í undankeppni EM í knattspyrnu.

Vrba varð tíðrætt um það hve óhemju agað og skipulagt íslenska liðið væri.

„Þeir stilla upp 4-4-2 og ég get verð að segja að íslenska liðið er ofsalega agað. Ég hef ekki séð annað eins lengi. Við munum líka sjá dæmigerða skandinavíska þrautseigju. Þeir sækja hratt fram og verða okkur erfiðir og óþægilegir,“ sagði Vrba. Hann segir enga tilviljun að Ísland skuli enn ekki hafa fengið á sig mark í keppninni.

„Auðvitað er þetta engin tilviljun. Þetta kemur út frá mikilli vinnu sem þeir hafa lagt á sig. Hollendingar fengu í raun aðeins eitt færi og Tyrkir tvö. Aginn og skipulagið er framúrskarandi hjá Íslendingum,“ sagði Vrba.

Aðspurður hvort lögð hefði verið sérstök áhersla á að verjast föstum leikatriðum fyrir leikinn við Íslendinga, vegna þess hve mörgum mörkum þau hefðu skilað Íslandi í keppninni, sagði Vrba:

„Við höfum greint föst leikatriði vel, bæði vegna þess að Ísland hefur skorað 5 mörk úr föstum leikatriðum, og líka af því að gegn Kasakstan [í síðasta leik] áttum við í vandræðum með að verjast þeim.“

Völlur sem stendur nærri hjarta mínu

Segja má að Vrba sé á heimavelli en hann stýrði Viktoria Plzen með glæsibrag um árabil og náði eftirtektarverðum árangri í Meistaradeildinni.

„Þetta er völlur sem stendur mjög nærri hjarta mínu. Það er auðvitað kostur að ég get sagt bílstjóranum nákvæmlega hvert hann á að fara og þekki hérna hvert einasta herbergi. Hérna þekki ég fjölmiðlafulltrúann og starfsmennina á vellinum vel,“ sagði Vrba léttur. Hann veit vel hve mikið er í húfi á morgun.

„Liðið sem vinnur á morgun tekur stórt skref til Frakklands. Við erum á heimavelli og ætlum að nýta okkur það eins og við getum, og fá stuðningsmennina með okkur,“ sagði Vrba.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert