Kannski ekki kveðjuleikurinn

Kristinn Jakobsson í lokaleik sínum á Íslandi í lokaumferð Pepsí-deildarinnar …
Kristinn Jakobsson í lokaleik sínum á Íslandi í lokaumferð Pepsí-deildarinnar í haust. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nei, ég veit hreinlega ekki hvort þetta sé síðasti leikurinn á ferlinum því það er í annarra höndum,“ segir Kristinn Jakobsson, milliríkjadómari í knattspyrnu, sem fer í dag til Frakklands og gæti þar verið á leið í sitt síðasta verkefni sem dómari.

Annað kvöld dæmir Kristinn viðureign St. Etienne og Qarabag frá Aserbaídsjan í Evrópudeild UEFA en þessi lið eru í hörðum slag um að komast áfram úr riðlakeppninni.

Kristinn hættir störfum sem milliríkjadómari um áramót vegna aldurs, eftir 17 ár á þeim vettvangi, og leggur um leið flautuna á hilluna en hann hefur dæmt í 21 ár í efstu deild hér á landi. Kveðjuleikur hans á íslenskri grundu var úrslitaleikur FH og Stjörnunnar í lokaumferð Pepsi-deildar karla 4. október.

„Venjulega er þetta þannig að maður dæmir í annarri hverri umferð í Evrópudeildinni og miðað við það hefði þetta átt að vera kveðjuleikurinn. En ég er búinn að fá skeyti um að vera líka til taks á síðasta leikdegi keppninnar, sem er í desember. Það er mjög óvenjulegt, ég hef ekki áður verið beðinn um að taka frá tvo leikdaga í röð, þannig að kannski bætist þarna við einn leikur. En það kemur bara í ljós,“ sagði Kristinn, sem dæmir í annað sinn í St. Etienne.

„Já, ég var þar líka árið 2008 og dæmdi leik liðsins við Hapoel Tel Aviv frá Ísrael, bráðskemmtilegan leik sem Frakkarnir unnu 3:1,“ sagði Kristinn.

Með honum í för til Frakklands eru aðstoðardómararnir Sigurður Óli Þorleifsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson, aukaaðstoðardómararnir Þóroddur Hjaltalín og Þorvaldur Árnason og fjórði dómari leiksins, Gylfi Már Sigurðsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert