Sörensen til liðs við KR - Bödker markvarðaþjálfari

Sören Fredriksen.
Sören Fredriksen. Ljósmynd/kr.is

Bikarmeistarar KR í knattspyrnu hafa samið við danska sóknarmanninn Sören Frederiksen til tveggja ára.

Sören er 25 ára gamall og kemur frá danska liðinu AaB sem er ríkjandi meistari og bikarmeistari. Sören er fjölhæfur leikmaður sem hefur getið sér gott orð fyrir vinnusemi og getur leyst allar stöður framarlega á vellinum, bæði á vinstri og hægri kanti eða sem framherji.

„Þegar ég heyrði af möguleikanum á að spila á Íslandi með KR kveikti það strax áhuga. Ég sé spennandi tækifæri í því að kynnast nýju landi og reyna fyrir mér í nýju umhverfi.

Íslenskir knattspyrnumenn og íslenska landsliðið hafa að undanförnu náð mjög góðum árangri á alþjóðlegum vettvangi og þar sem KR er stærsta liðið í íslenskri knattspyrnu geri ég ráð fyrir að vera að ganga til liðs við mjög gott knattspyrnulið. Þetta verður ný áskorun fyrir mig og ég hlakka til að hefjast handa,“ segir Sören Fredriksen á vef KR-inga.

Bödker ráðinn yfirmarkvarðaþjálfari KR-inga

Þá hafa KR-ingar samið við Danann Henrik Bödker sem mun taka að sér stöðu yfirmarkmannaþjálfara KR og aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla, ásamt því að sinna ýmsum öðrum verkefnum fyrir félagið. Henrik hefur dvalið hér á landi undanfarin ár og þjálfað hjá Stjörnunni í Garðabæ með góðum árangri.

„Eftir fjögur frábær ár hjá Stjörnunni fannst mér kominn tími til að takast á við nýjar áskoranir. Ég hef undanfarna mánuði skoðað ýmsa kosti sem mér stóðu til boða en eftir að hafa rætt við KR-inga og nýja þjálfarateymið, þar sem ég fann fyrir miklum áhuga á starfskröftum mínum, er það mat mitt að sú stefna sem unnið er eftir sé afar áhugaverð og spennandi tímar framundan. Ég get ekki beðið eftir að halda aftur til Íslands og hefja störf með Bjarna, Gumma og strákunum í liðinu,“ segir Bödker á vef KR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert