Okkar menn betur skólaðir frá barnæsku

Hannes Þ. Sigurðsson.
Hannes Þ. Sigurðsson. Skapti Hallgrímsson

„Þetta verður erfiður útileikur eftir langt ferðalag og það er alveg ljóst að landsliðsmennirnir okkar mega ekki vanmeta Kasakana á nokkurn hátt,“ segir Hannes Þ. Sigurðsson, eini íslenski knattspyrnumaðurinn sem hefur spilað með félagsliði í Kasakstan, en hann spilaði með Atyrau tímabilið 2012.

„Ég myndi segja að munurinn á fótboltamönnum á Íslandi og í Kasakstan sé sá að okkar menn séu betur skólaðir frá barnæsku. Kasakar eiga marga góða fótboltamenn, sem flestir eru með mjög fína boltameðferð og eru hörkuduglegir. Þegar maður spilar með þeim, fimm í liði, á æfingum eru þeir virkilega flottir, en þá skortir helst ýmsa taktíska hluti og þar finnst mér þeirra veikleiki liggja. Ég varð vel var við þetta hjá mínu félagi og þeim liðum sem við spiluðum gegn. Í landsliðinu eru hinsvegar allir bestu leikmennirnir svo það er spurning hvort þetta komi sérstaklega fram þar,“ sagði Hannes við Morgunblaðið.

Aðstæður eiga að vera frábærar

„Það er engin spurning, að mínu mati, að við eigum betri leikmenn en þeir, sem spila í betri deildum. Menn mega hinsvegar alls ekki ofmetnast og verða að vera klárir í erfitt verkefni. Dagsformið mun eflaust ráða mestu hjá báðum liðum. Aðstæðurnar eiga að vera frábærar, gervigrasið ætti að henta okkar mönnum ágætlega og höllin er lokuð, enda alltaf hörkufrost þarna á þessum árstíma.

Hvað landsliðið þeirra varðar þá virðist hafa verið mikið flæði á leikmönnum inn og út úr því á undanförnum árum. Með mér hjá Atyrau spiluðu nokkrir fyrrverandi landsliðsmenn sem voru samt ekki gamlir en höfðu hætt snemma með landsliðinu,“ sagði Hannes.

Astana gullfalleg og nýtískuleg

Hann sagði að það færi örugglega vel um íslensku leikmennina í höfuðborginni þrátt fyrir frost og kulda. „Ég missti reyndar af útileiknum okkar í Astana, var meiddur einu sinni sem oftar þegar sá leikur fór fram, en ég hef oft komið til borgarinnar sem er gullfalleg og nýtískuleg, enda byggð upp á síðustu 10-15 árum og minnir að mörgu leyti á Dubai. Þarna er allt til alls og lífsgæðin á háu stigi. Íbúar í Astana og í Almaty, gömlu höfuðborginni, hafa það almennt mjög gott og þar er eflaust best að búa í landinu,“ sagði Hannes.

Gríðarlegar vegalengdir

Hans lið árið 2012, Atyrau, er frá evrópska hluta Kasakstans, rétt norðan við Kaspíahafið, en um 90 prósent af landinu eru í Asíu. „Landið er gríðarlega stórt og vegalengdir miklar. Okkar aðal-nágrannaslagur var gegn liði í 600 kílómetra fjarlægð og það var eina ferðalagið með rútu. Annars var flogið, en í eitt skiptið þar sem verið var að spara, fórum við þó í 27 tíma lestarferð í einn útileikinn. Og hann var samt bara í miðju landinu!“ sagði Hannes.

Stefnir á síðustu níu leikina

Sjálfur er hann leikmaður Jahn Regensburg í þýsku C-deildinni en hefur enn ekki náð að spila leik síðan hann samdi við félagið í janúar. „Ég meiddist á ökkla um svipað leyti og ég skrifaði undir, mín saga á ferlinum ef svo má segja. En ég var í hópnum í fyrsta skipti í síðasta leik og stefni að því að ná þeim níu leikjum sem eftir eru á tímabilinu. Svo sé ég bara til,“ sagði Hannes sem líklega er víðförlastur íslenskra knattspyrnumanna og hefur auk Kasakstans og Þýskalands spilað í Rússlandi, Austurríki, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Englandi, auk Íslands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert