Eru spár ekki bara til að troða sokkum?

Sindri Björnsson, leikmaður Leiknis, var skiljanlega kampakátur eftir 3:0-sigur liðsins á Valsmönnum í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Þetta var frumraun Leiknis í efstu deild og menn hafa keppst við að spá þeim falli úr deildinni.

„Það var ekki óeðlileg spá, við erum nýliðar og aldrei spilað í efstu deild. En eru svona spár ekki bara til að troða sokkum? Þetta er bara einn leikur, bara þrjú stig sem gefa okkur ekkert í næsta leik. Vissulega draumabyrjun enda förum við í alla leiki til að ná í þrjú stig,“ sagði Sindri við mbl.is eftir leikinn, en hann skoraði annað mark liðsins í leiknum.

Leiknir fékk dyggan stuðning úr stúkunni og segir Sindri það skipta ekki síður máli. „Þessir áhorfendur eiga alveg jafn mikið í þessu og við leikmennirnir. Þetta var bara geðveikt. En þetta er bara einn leikur, þetta er rétt að byrja,“ sagði Sindri Björnsson í samtali við mbl.is, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert