Frekar létt að spila með honum

Skúli Jón Friðgeirsson í meistaraleiknum gegn Stjörnunni fyrir skömmu.
Skúli Jón Friðgeirsson í meistaraleiknum gegn Stjörnunni fyrir skömmu. mbl.is/Eva Björk

„Það er mikil eftirvænting í manni. Það er langt síðan síðast og ekki skemmir fyrir að þetta er stór og góður leikur,“ sagði Skúli Jón Friðgeirsson sem kvaddi KR árið 2011 sem tvöfaldur meistari en leikur í kvöld sinn fyrsta leik í íslensku úrvalsdeildinni síðan þá, þegar KR mætir FH í 1. umferð Pepsi-deildarinnar.

Skúli segir það hafa kosti og galla að þessi stórleikur sé á dagskrá strax í fyrstu umferð.

„Þetta ætti að koma hlutunum strax í gang, líka bara hjá stuðningsmönnunum, að fá svona alvöru start. En það segir sig sjálft að það verður ekki spilaður neinn sambafótbolti, á milli þessara tveggja góðu liða, þegar þetta hefði getað orðið mjög góður fótboltaleikur síðar á tímabilinu,“ sagði Skúli.

Hann er einn margra sterkra leikmanna sem KR fékk til að fylla í skörðin eftir að hafa misst lykilmenn úr sínum herbúðum.

„Þetta eru heilmiklar breytingar og þær hafa tekið svolítinn tíma. Menn hafa líka bæst við smám saman. Ég kom í febrúar og það hafa alveg 2-3 komið eftir það. En þetta er búið að vera mjög fínt og mikill stígandi í þessu hjá okkur. Mér fannst leikurinn gegn Stjörnunni [meistarakeppni KSÍ] fínn, þó að auðvitað gætum við skapað meira á fremsta þriðjungi vallarins, en annars er kominn góður taktur í liðið. Við erum klárir fyrir kvöldið,“ sagði Skúli sem spilar við hlið Rasmus Christiansen í miðri vörn KR:

„Það hefur tekið smátíma fyrir okkur að kynnast hvor öðrum en þetta hefur verið mjög fínt í síðustu leikjum. Þetta verður glæsilegt. Rasmus er afskaplega góður leikmaður og það ætti að vera frekar létt að spila með honum.“

KR og FH mætast kl. 19.15 í Frostaskjóli:

„FH-liðið er mjög gott. Ég hef ekki spilað á móti FH í svolítinn tíma en það er fullt af mönnum þarna sem ég hef mætt áður og líka fullt af nýjum sem ég hef ekkert séð ennþá. Þeir eiga að vera mjög góðir á pappírnum,“ sagði Skúli, sem er ánægður með að geta spilað í Frostaskjóli en í fyrra þurfti KR að spila fyrstu heimaleiki sína á gervigrasinu í Laugardal.

„Ég hef heyrt það á félögum mínum að þetta var ekki skemmtilegt í fyrra. Maður missir allt heimavallarforskot með því að spila bara á gervigrasi í Laugardalnum, og mönnum fannst bara eins og þetta væri ekki Íslandsmót. Það er kærkomið og nauðsynlegt að byrja mótið á eigin heimavelli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert