Fylkir krækti í jafntefli undir lokin

Fjölnir og Fylkir gerðu 1:1-jafntefli þegar liðin mættust í 2. umferð Pepsi-deildar karla í Grafarvogi í kvöld. Fjölnismenn virtust vera að sigla sigrinum heim þegar gestirnir jöfnuðu á lokamínútu leiksins, þeirra annað jafntefli í jafnmörgum leikjum.

Fylkismenn byrjuðu leikinn betur og pressuðu stíft á heimamenn, án þess þó að fá nokkur afgerandi færi. Gulklæddum heimamönnum fór svo að vaxa ásmegin eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og það bar ávöxt á 35. mínútu þegar Guðmundur Karl Guðmundsson kom þeim yfir. Hann lét þá vaða rétt utan teigs og fór boltann í boga yfir Bjarna Þórð í marki Fylkis, sem hefði ef til vill átt að gera betur.

Markið hleypti auknum krafti í Fjölnismenn sem hefðu getað bætt við marki undir lok fyrri hálfleiksins, en gestirnir héldu út. 1:0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri. Fylkismenn voru meira með boltann en sköpuðu sér engin færi. Þeir reyndu mikið langar sendingar fram á sóknarmenn sína sem höfðu úr litlu að moða og var leikurinn að spilast nokkuð vel fyrir Fjölni sem voru mun beinskeyttari í sínum aðgerðum.

Heimamenn hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk, en þess í stað fóru Fylkismenn að ná betri takti í sinn leik og pressuðu stíft undir lok leiksins þar sem þeim lá mikið á. Það bar ávöxt á lokamínútunni þegar varnarmaðurinn Tonci Radovinkovic skallaði aukaspyrnu Andrésar Más Jóhannessonar í netið. Lokatölur 1:1 og gengu Fjölnismenn töluvert svekktari af velli.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld. Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Til að fylgjast á einum stað með öllu sem gerðist í leikjum kvöldsins, smellið á ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI. 

Fjölnir 1:1 Fylkir opna loka
90. mín. Leik lokið Fjölnismenn ganga eflaust töluvert svekktari af velli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert