Þetta var þolinmæðisvinna

„Þetta var þolinmæðisvinna á móti mjög vel skipulögðu ÍBV-liði sem lá þétt og reyndi svo að refsa okkur með skyndisóknum. Við vissum að þetta gæti orðið erfitt og þolinmæðisvinna. Við hefðum svo sem getað sett mark í fyrri hálfleik og sennilega átt að fá víti, “ sagði Bjarni Guðjónsson þjálfari KR eftir 1:0 sigur liðsins á ÍBV í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag.

Með sigrinum fór KR í toppsæti Pepsi-deildarinnar.

Óskar Örn Hauksson skoraði eina mark leiksins á 79. mínútu en KR-ingar þurftu virkilega að hafa fyrir því að brjóta ísinn. Bjarni var ánægður með liðið sitt í dag, sérstaklega fyrir að hafa haldið haus á móti skipulögðum Eyjamönnum.

„En 1:0 og við héldum haus. Ég var ánægur með strákana. Við héldum okkar striki og spiluðum okkar leik allan tímann og skoruðum mark eftir fyrirgjöf sem var mjög gott,“ sagði Bjarni sem var þrátt fyrir tæpan sigurinn nokkuð ánægðir með KR.

„Já, ég var það en mér fannst við vera full kærulausir síðustu tíu mínúturnar eftir að við skorum. Þá hefðum við átt að taka boltann og halda honum betur. Þá komu þeir á miklum krafti, settu langa bolta á okkur og reyndu að hleypa leiknum upp,“ sagði Bjarni.

KR-ingar hafa 10 stig í toppsætinu eftir leikinn en FH og Stjarnan mætast á morgun og geta bæði með sigri komist upp fyrir KR.

Bjarni sagði í viðtalinu við mbl.is að aðeins 1. sætið dygði hjá félaginu en vegna tæknilegra örðugleika komst allt viðtalið ekki til skila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert