Upp úr sauð í sigri KR á Stjörnunni

Harður slagur við mark Stjörnunnar í leiknum í kvöld.
Harður slagur við mark Stjörnunnar í leiknum í kvöld. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

KR vann afar mikilvægan sigur á Íslandsmeisturum Stjörnunnar, 1:0, í dramatískum leik á Samsungvellinum í Garðabæ í kvöld. Gunnari Nielsen, markvörður Stjörnunnar, fékk rautt spjald.

Fyrri hálfleikur var markalaus en fjörugur engu að síður og bæði lið fengu færi til að komast yfir. Í seinni hálfleik var fjörið hins vegar mikið.

Stjarnan varð fyrir áfalli eftir klukkutíma leik þegar Daníel Laxdal, miðvörður, fór meiddur af velli. Michael Præst fór í hans stöðu í vörninni og Þorri Geir Rúnarsson kom inná. Skömmu síðar kom eina mark leiksins þegar Almarr Ormarsson skoraði með hörkuskalla af fjærstöng eftir glæsilega fyrirgjöf frá Sören Frederiksen, framherja KR í þessum leik líkt og undanfarið.

Stefán Logi slapp með skrekkinn

Aðeins tveimur mínútum eftir markið hófst mikil dramatík. Stefán Logi Magnússon, markvörður KR, lék sér svo sannarlega að eldinum þegar hann var heillengi að taka upp boltann og missti hann til Ólafs Karls Finsen. Ólafur Karl náði hins vegar ekki að koma skoti á markið en féll við í teignum þegar Stefán Logi kastaði sér á eftir boltanum. Erlendur Eiríksson dómari tók sér góðan tíma en dæmdi svo aukaspyrnu, að því er virtist eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómara, á Ólaf Karl vegna þess að Stefán Logi var kominn með hendur á boltann í upphafi þegar Ólafur Karl náði honum. Stjörnumenn voru æfir og vissir um að Stefán ætti að fá rautt spjald og Stjarnan vítaspyrnu, en svo var ekki.

Það sauð allt upp úr á þessum tímapunkti. Sigurður Sveinn Þórðarson, liðsstjóri Stjörnunnar, var sendur upp í stúku fyrir mótmæli við dómnum. Fáeinir stuðningsmenn Stjörnunnar köstuðu tómum bjórdósum inná völlinn og spurning hvort einhverjir eftirmálar verða af því.

Skömmu síðar, korteri fyrir leikslok, fékk Gunnar Nielsen rauða spjaldið þegar hann stöðvaði boltann utan vítateigs með hendi, þegar Almarr var að elta stungusendingu. Hárréttur dómur. Manni færri reyndu Stjörnumenn að jafna metin undir lokin en höfðu ekki erindi sem erfiði og sætur sigur KR í höfn.

KR er því í 3. sæti deildarinnar með 17 stig, þremur stigum frá toppnum, en Stjarnan með 12 stig í 6. sæti.

Hægt var að fylgjast með gangi mála í öllum leikjum kvöldsins í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Stjarnan 0:1 KR opna loka
90. mín. Óskar Örn Hauksson (KR) fer af velli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert