FH í þriggja stiga forskot á toppnum

Þórarinn Ingi Valdimarsson fagnar marki sínu gegn Fjölni í kvöld.
Þórarinn Ingi Valdimarsson fagnar marki sínu gegn Fjölni í kvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Áhorfendur voru ekki sviknir um skemmtun í Grafarvogi í kvöld þegar að FH vann 3:1 sigur á FJölni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

FH-ingar hófu leikinn vel og höfðu ekki mikið fyrir því að opna mikið breytta vörn Fjölnismanna sem lagaðist þó þegar leið á leikinn.

Eftir að Þórarinn Ingi Valdimarsson og Atli Guðnason höfðu báðir klúðrað dauðafærum á fyrstu
19. mínútunum var röðin aftur komin að þeim félögunum á 36. mínútu.

Atli fékk sendingu frá Pétri Viðarssyni, sendi knöttinn á Þórarin sem renndi sér á boltinn og kláraði færið vel, 1:0

Aðeins fjórum mínútum síðar jöfnuðu hins vegar Fjölnismenn. Ólafur Páll Snorrason tók aukaspyrnu, Róbet Örn Óskarsson markvörður FH náði ekki handsama knöttinn og var í litlu jafnvægi þegar að Guðmundur Karl Guðmundsson tók skot sitt sem var frekar laust og lak einhvern veginn í gegnum leikmannaþvöguna í teignum, 1:1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

FH-ingar voru ljónheppnir að fá ekki á sig mark í upphafi síðari hálfleiks. Fjölnismenn þjörmuðu vel að FH markinu, Bergsveinn tók fyrst skot sem Róbert varði. Aron Sigurðarson tók strax í kjölfarið þrumuskot í slá og úr hornspyrnunni sem fylgdi björguðu FH-ingar á línu frá Bergsveini. Staðan enn jöfn.

Áfram héldu Fjölnismenn. Aron Sigurðarson átti fínt færi en skaut rétt framhjá af miklu harðfylgi en þar rétt á undan hafði Bergsveinn skallað framhjá úr dauðafæri.

Það varð Fjölnismönnum dýrt að ná ekki að klára þessi færi.

Á 71. mínútu vann Þórarinn Ingi boltann af Ragnari Leóssyni sem var staðsettur hægra megin í teignum, sendi lágan bolta fyrir á varamannamanninn Jeremy Serwy sem þurfti aðeins að ýta boltanum yfir marklínuna, 2:1.

Atli Guðnason gulltryggði svo sigur FH-inga með fagmannlegri afgreiðsu rétt fyrir utan vítateig þar sem hann lagði knöttinn í fjærhornið með innanfótarskoti eftir undirbúning frá Steven Lennon, 3:1 lokatölur.

 Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Fjölnir 1:3 FH opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert