„Ef einhver ætlar að mótmæla getur hann farið heim“

Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA.
Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA. Skapti Hallgrímsson

Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA, var svekkt að liðið hafi ekki náð að koma til baka í 3:2-tapi gegn Stjörnunni í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu í kvöld. Þór/KA var 3:0 undir í hálfleik en það var allt annað að sjá til liðsins eftir hlé.

Mbl.is greip Karen tali eftir að liðið hafði haldið liðsfund á miðjum vellinum eftir leik. Hvað var þar rætt?

„Bara hvað við vorum ótrúlega flottar í seinni hálfleik. Ef við hefðum komið þannig inn í leikinn frá byrjun hefðum við rústað þessu liði. Ég veit ekki hvar hausinn okkar var í fyrri hálfleik, en svo núllstilltum við okkur í hálfleik. Það var bara eitt lið á vellinum í síðari hálfleik og ef einhver ætlar að mótmæla því getur sá hinn sami bara farið heim til sín,“ sagði Karen ákveðin, en létt í bragði.

Harpa Þorsteinsdóttir kom Stjörnunni yfir strax á fjórðu mínútu með skoti utan teigs, og Karen segir það hafa slegið Þór/KA aðeins útaf laginu.

„Það kom alltof snemma, skot fyrir utan teig upp í bláhornið sem er kannski lítið við að gera. Við bjuggumst nú ekki við svona draumaskoti og hún örugglega ekki heldur. En svo eru það tvö mörk úr horni sem er bara einbeitingarleysi hjá okkur. En karakterinn í liðinu er svo rosalega flottur, það sást í síðari hálfleik þar sem við vorum að berjast eins og ljón og fyrir hverja aðra. Þess vegna er svo ótrúlega svekkjandi að hafa ekki komist áfram,“ sagði Karen.

Aðspurð hvernig tilhugsunin væri að fara aftur norður í rútu svona á föstudagskvöldi glotti Karen.

„Við erum fljúgandi, prinsessunum var flogið í bikarleikinn. Það er smá munur að geta farið í vélinni heim, en það skapast ákveðin stemning og komin mikil hefð hjá okkur í rútunni. Maður er orðin svolítið vön rútuferðunum eftir einhver sautján ár, svo mér líður bara eins og drottningu að fá að fara í flug allt í einu,“ sagði Karen hin ánægðasta í samtali við mbl.is eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert