Erfitt að spila á móti leikmönnum og dómaranum

Ólafur Þórðarson hundfúll í leikslok talar við Dofra Snorrason.
Ólafur Þórðarson hundfúll í leikslok talar við Dofra Snorrason. Eva Björk Ægisdóttir

Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkinga, var ósáttur svo vægt sé til orða tekið við frammistöðu dómarans Gunnars Jarls Jónssonar eftir að Víkingar féllu úr leik gegn Val í átta liða úrslitum bikarsins í kvöld, 2:1.

Víkingar komust yfir í fyrri hálfleik en fengu á sig jöfnunarmark strax í þeim síðari þegar Thomas Nielsen, markvörður þeirra, virtist slá boltann í eigið net eftir hornspyrnu. Ólafur var allt annað en sáttur að ekki væri dæmt brot á sóknarmenn Vals.

„Þetta var augljóst brot, það var haldið í aðra höndina á honum enda sjá þeir það sem horfðu á leikinn að hann er að reyna að ná boltanum en Valsararnir hanga á honum. Og dómarinn sér ekki neitt! Þetta er alveg ótrúlegt,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is og hækkaði róminn máli sínu til stuðnings en var ekki hættur.

„Það er erfitt að spila á móti svona mörgum leikmönnum og vera með dómarann meira í hina áttina líka, það er bara þannig. Það hallaði verulega á okkur í leiknum,“ sagði Ólafur ákveðinn.

Leikurinn jafnaðist nokkuð eftir markið en tíu mínútum fyrir leikslok tryggði Ian Williamson sigur Valsmanna og var Ólafur ekki ánægður með sína drengi í aðdraganda marksins.

„Eftir að þeir jafna reyndum við að sækja annað mark, enda er ekki spilað til eilífðar í bikarnum. Við fengum hins vegar á okkur annað mark sem var algjör aulaskapur. Við gáfum þeim þetta mark, það er ósköp einfalt mál,“ sagði Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkinga, í samtali við mbl.is eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert