„Veit ekki einu sinni hvaða lið eru eftir“

Ólafur Jóhannesson fagnar í leikslok í kvöld.
Ólafur Jóhannesson fagnar í leikslok í kvöld. Eva Björk Ægisdóttir

Ólafur Jóhannesson, þjálfari  Valsmanna, var yfirvegaður eftir 2:1-sigur sinna manna á Víkingi í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í kvöld.

„Ég er ánægður með sigurinn. Mér fannst við hafa yfirburði í þessum leik en okkur gekk illa að skapa okkur færi. Við hins vegar kláruðum þetta sem betur fer,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is eftir leikinn. Víkingar komust yfir í fyrri hálfleik með marki Andra Rúnars Bjarnasonar með viðstöðulausu skoti, en Valsmenn jöfnuðu strax í síðari hálfleik.

„Hann smellhitti boltann og gerði mjög vel, sem stuðaði okkur pínulítið, en hlutirnir voru líka að ganga illa hjá okkur. Við vorum öllu ákveðnari í seinni hálfleik og það losaði ákveðna pressu að jafna leikinn,“ sagði Ólafur og viðurkenndi að sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok hefði verið kærkomið.

„Það var sætt að sjá hann inni, ég viðurkenni það. Við höfðum fengið fín færi fram að því en náðum að klára þetta undir lokin,“ sagði Ólafur. En á hann óskamótherja í undanúrslitunum?

„Ég veit ekki einu sinni hvaða lið eru þarna ennþá. Ég vil bara eitthvað af þessum liðum sem eru eftir, þá er ég ánægður,“ sagði Ólafur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert