Svaf varla í nótt

Fagnað í leikslok í kvöld. Ævar Ingi Jóhannesson, sem gerði …
Fagnað í leikslok í kvöld. Ævar Ingi Jóhannesson, sem gerði seinna markið, Ívar Örn Árnason og Jóhann Helgason fyrirliði. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ívar Örn Árnason er nafn sem fáir sparkspekingar þekkja. Ívar Örn var í byrjunarliði KA í dag þegar liðið tók á móti Fjölni í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á Akureyri og vann KA 2:1.

Ívar Örn er sonur Árna Freysteinssonar sem lék um árabil með KA. Drengurinn var rifinn í viðtal eftir leik. ,,Þetta var fyrsti leikurinn minn í byrjunarliðinu. Í gær fékk ég að vita að ég ætti að byrja leikinn og því svaf ég varla í nótt. Ég var að deyja úr stressi. Svo byrjaði leikurinn svona vel og Fjölnismenn sóttu meira upp hinum megin á vellinum svo ég gat alveg áttað mig og komst fljótt inn í að spila minn leik. Nú er stefnan tekin á að halda stöðunni og spila næstu leiki. Þjálfararnir eru búnir að benda okkur yngri strákunum á að það sé stíft prógram fram undan og við þurfum að vera klárir í að koma inn í liðið.“

En að leiknum. ,,Það má segja að þetta hafi verið baráttusigur. Við náðum góðri keyrslu í byrjun og eftir það vorum við mjög þéttir. Í raun lentum við aldrei í teljandi vandræðum. Atli Sveinn (fyrrum fyrirliði KA) var eitthvað að fíflast með það að Fjölnismenn hefðu vanmetið okkur þar sem hann væri hættur að spila. Ég gæti frekar trúað því að Fjölnismenn væru ekki vanir að þurfa að sækja svona á þéttskipaða vörn og því hafi þeir átt erfitt með að skapa færi. Við vorum ákveðnir í að halda forystunni og þótt þeir næðu einu marki þá var aldrei neitt vesen á vörninni. Ég er bara ánægður með minn leik og sigurinn“ sagði Ívar Örn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert