KA í undanúrslit bikarkeppninnar

Lokaleik 8-liða úrslita Borgunarbikars karla í knattspyrnu var að ljúka á Akureyri. Þar áttust við KA og Fjölnir í hörkuleik þar sem KA sigraði, 2:1, og er með því fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar.

KA menn hafa hugsanlega horft á úrslitaleik HM kvenna í gær því byrjun þeirra var svipuð og hjá heimsmeisturum Bandaríkjanna. Tvö mörk á tveggja mínútna millibili í upphafi leiks gáfu góð fyrirheit og allan fyrri hálfleikinn voru Fjölnismenn að jafna sig.

Davíð Rúnar Bjarnason skoraði með skalla á 6. mínútu og hvirfilbylurinn Ævar Ingi Jóhannesson bætti við marki skömmu síðar. Eftir mörkin róaðist leikurinn töluvert og það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks sem Fjölnismenn fóru að sýna klærnar.

Mark Magee minnkaði muninn snemma í síðari hálfleiknum og upp úr því sóttu Fjölnismenn meira án þess að skapa hættuleg færi. Í lokin jókst pressan en háloftaspyrnur Fjölnis gerðu lítinn usla. Það voru því KA-menn sem fögnuðu sigri 2:1.

Dregið verður í undanúrslit á morgun en í pottinum eru KA, KR, ÍBV og Valur.

KA 2:1 Fjölnir opna loka
90. mín. Bergsveinn Ólafsson (Fjölnir) á skalla sem fer framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert