Íþróttaálfurinn sjálfur hefði ekki bjargað Stjörnunni

Ólafur Karl Finsen í baráttu við Scott Brown í leiknum …
Ólafur Karl Finsen í baráttu við Scott Brown í leiknum í gær. Eggert Jóhannesson

Eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi talaði Ólafur Karl Finsen, leikmaður Stjörnunnar, um að hroka hefði gætt innan sem utan vallar hjá Celtic í einvígi liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

 „Þeir íslensku mega eiga öskuna, skosku meistararnir eru með augun á peningunum í keppninni,“ segir í Daily Record eftir leikinn og er vísað í gosið í Eyjafjallajökli sem setti flugsamgöngur úr skorðum í álfunni á sínum tíma. „Vonin lifir hjá Celtic um að heimsækja stærstu velli álfunnar, frekar en að fara aftur á Samsung-völlinn,“ skrifa þeir og hæðnistónninn skín í gegn og beindist einnig að liði Stjörnunnar.

„Allir þúsund áhorfendurnir trúðu ekki eigin augum og 150 stuðningsmenn Celtic gátu ekki leynt undrun sinni þegar Stjarnan komst yfir,“ er skrifað áður en snúið er að Silfurskeiðinni.

„Aðeins þeir allra hörðustu hefðu ekki vorkennt stuðningsmönnum Stjörnunnar sem skrúfuðu upp í tónlistinni og söngvum. Þeir eru líklega fyrsta stuðningsmannasveit sögunnar sem syngja lag eftir Leonard Cohen í stúkunni. Útgáfa þeirra af laginu Hallelujah hefði meira að segja kallað fram bros á Cohen sjálfum hefði hann verið á staðnum, sem lætur heimavöll Inverness Caley Thistle líta út eins og Bernabeu,“ er skrifað, en liðið sem nefnt er spilar í skosku úrvalsdeildinni.

Áfram héldu þeir skosku að furða sig á vallaraðstæðum í Garðabænum.

„Það er gömul sundlaug bakvið einu stúkuna á vellinum, leikvöllur fyrir krakka á bak við annað markið og röð af trjám á bak við hitt sem á að halda vindinum frá. Stjarnan er frá Garðabæ, þaðan sem barnaefnið Latibær kemur, en um leið og Celtic fann taktinn hefði Íþróttaálfurinn sjálfur ekki einu sinni getað bjargað Stjörnunni.“

„Celtic gat leyft sér að stjórna spilinu líkt og um æfingu væri að ræða í síðari hálfleik á plastvelli Stjörnunnar sem þyrlaði upp meira gúmmíi en Formúla 1 braut,“ segir meðal annars í umfjöllun Daily Record um leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert