Getum valdið þeim vandræðum

Lars Lagerbäck og Aron Einar á fréttamannafundinum í morgun ásamt …
Lars Lagerbäck og Aron Einar á fréttamannafundinum í morgun ásamt Ómari Smárasyni frá KSÍ. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Lars Lagerbäck, annar af þjálfurum íslenka landsliðsins í knattspyrnu, segir að þeir Heimir Hallgrímsson séu búnir að ákveða hvaða ellefu leikmenn byrja inná í leiknum gegn Hollendingum á Amsterdam Arena-vellinum annað kvöld.

„Annaðhvort tilkynnum við leikmönnunum það í kvöld hvernig byrjunarliðið verður eða gerum það á morgun. En við erum búnir að ákveða hvaða ellefu leikmen hefja leikinn,“ sagði Lars á fréttamannafundi á Amsterdam Arena í morgun.

Um viðureignina við Hollendinga sagði Lars:

„Þetta er áhugaverður leikur. Við erum í góðri stöðu í riðlinum sem er mjög ánægjulegt. Það er ætíð raunhæfur möguleiki á að vinna og sé litið til úrslita hjá íslenska landsliðinu ættu flestir að sjá að við erum með gott lið eftir þessi fjögur ár sem við höfum unnið saman.

Við gerum okkur grein fyrir því að leikurinn við Hollendinga verður erfiður. Þeir eru sterkir á heimavelli, eru með gott lið en við eigum möguleika á að valda þeim vandræðum. Við verðum að verjast vel sem eitt lið,“ sagði Lars.

Hollendingar leika sinn fyrsta leik undir stjórn Dannys Blinds annað kvöld en hann tók við liðinu eftir að Guus Hiddink lét af störfum í sumar.

„Nýr þjálfari breytir varla miklu um hvernig hollenska liðið mun spila. Ég vonast bara til að við getum haldið boltanum innan liðsins eins og okkur tókst að gera ágætlega í fyrri leiknum. Við þurfum að halda skipulaginu vel þegar við höfum ekki boltann og reyna að sækja á þá þegar við vinnum boltann“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert