Allt í hnút á toppi 2. deildar

Leikið var í Fjarðabyggðarhöllinni í dag þegar Leiknir F. og …
Leikið var í Fjarðabyggðarhöllinni í dag þegar Leiknir F. og ÍR áttust við. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Leiknir Fáskrúðsfirði og ÍR gerðu markalaust jafntefli í slag efstu tveggja liðanna í 2. deild karla í knattspyrnu í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í dag, og enn ríkir mikil spenna um það hvaða tvö lið komast upp í 1. deildina.

Leiknir er nú með 45 stig á toppnum og ÍR 44 stig, en Huginn er í 3. sæti með 42 stig og á leik til góða við KF á morgun. Markatala liðanna er nokkuð svipuð en Leiknir á fjögur mörk til góða á ÍR og fimm á Hugin.

Huginn og ÍR mætast á Seyðisfirði næsta laugardag og þar verður gífurlega mikið í húfi. Leiknismenn geta nýtt sér það að keppinautarnir skuli eiga eftir að mætast og standa að því leyti vel að vígi.

Eftir leiki morgundagsins verða tvær umferðir eftir og þar eru leikir toppliðanna sem hér segir:

Leiknir F. mætir Ægi á heimavelli og Hetti á útivelli.

ÍR mætir Hugin á útivelli og KV á heimavelli.

Huginn mætir ÍR á heimavelli og Sindra á útivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert