Dómgæslan í sviðsljósinu í sigri FH

Atli Guðnason í baráttunni gegn varnarmönnum ÍBV í dag.
Atli Guðnason í baráttunni gegn varnarmönnum ÍBV í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Það var líf og fjör í Kaplakrika er FH sigraði ÍBV 2:1 í 19. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Það dróg strax til tíðinda á 15. mínútu en þá skoruðu Eyjamann afar umdeilt mark. Víðir Þorvarðarson fékk þá boltann hægra megin á vængnum. Gunnar Heiðar Þorvaldsson stakk sér inn fyrir og var í augljósri rangstöðu er Víðir sendi boltann, en Gunnar lét boltann fara í gegnum lappirnar á sér áður en Ian David Jeffs stýrði knettinum í netið, vinstra megin við Róbert Örn Óskarsson í markinu.

Steven Lennon jafnaði metin aðeins tíu mínútum síðar. Jeremy Serwy átti þá fyrirgjöf sem Lennon kom á markið en Abel Dhaira tókst að verja á einhvern ótrúlegan hátt. Það reyndist þó ekki nóg þar sem Lennon fékk frákastið og stangaði knöttinn í netið.

FH-ingar sóttu mikið restina af hálfleiknum en tókst ekki að gera sér mat úr færum sínum. Það var þó töluvert meira fjör í þeim síðari. Atli Guðnason kom FH yfir strax á 48. mínútu eftir laglegan undirbúning Lennons. Skotinn hristi þá af sér varnarmann áður en hann stakk boltanum inn á Atla sem skoraði örugglega í autt netið.

Fimm mínútum síðar átti sér stað atvik sem erfitt er að kalla umdeilt. Hafsteinn Briem átti þá skot á markið sem Kassim Doumbia, varnarmaður FH, handlék í stöng áður en Þóroddur Hjaltalín dæmdi hornspyrnu. Samkvæmt myndum af atvikinu þá virtist boltinn hafa verið inni og fannst því Eyjamönnum dómarar leiksins hafa rænt af þeim mark.

FH fékk vítaspyrnu á 78. mínútu. Jón Ragnar Jónsson átti þá sendingu frá hægri vængnum á Serwy sem gaf laglega hælsendingu á Þórarinn Inga Valdimarsson, sem skaut á markið, en Stefán Ragnar Guðlaugsson fékk knöttinn í handlegginn og var því réttilega dæmd vítaspyrna.

Lennon steig á punktinn og skoraði örugglega í hægra hornið. Lokatölur í Krikanum í dag 3:1 FH í vil. Liðið er áfram á toppnum með 45 stig á meðan ÍBV er með 18 stig í 10. sæti.

Fylgst var með gangi mála í textalýsingu hér á mbl.is.

FH 3:1 ÍBV opna loka
90. mín. Bjarni Gunnarsson (ÍBV) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert