Helgi æfir með Brighton

Helgi Guðjónsson í leik með U15 ára landsliði Íslands.
Helgi Guðjónsson í leik með U15 ára landsliði Íslands. Ljósmynd/KSÍ

Helgi Guðjónsson, drengjalandsliðsmaður í knattspyrnu úr Fram, æfir með enska B-deildarliðinu Brighton næstu daga en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í dag.

Helgi, sem er 16 ára gamall, lék með íslenska U15 ára landsliðinu á Ólympíuleikum æskunnar á síðasta ári og með U17 ára landsliðinu á þessu ári en hann er að ganga upp úr þriðja flokki.

Þessi öflugi framherji mun æfa með U18 ára liði Brighton næstu daga en útsendarar félagsins sáu hann í leik með 3. flokki Fram gegn Keflavík í bikarnum í sumar og ákváðu í kjölfarið að bjóða honum út á reynslu.

Þess má til gamans geta að Helgi var langmarkahæstur í B-deild 3. flokks í sumar en hann gerði 30 mörk í 14 leikjum samkvæmt heimasíðu KSÍ.

Ragnar Már Lárusson og Emil Ásmundsson eru báðir á mála hjá Brighton en Ragnar var láni hjá uppeldisfélagi sínu, ÍA, í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert