Indriði gerir samherjana betri

Bjarni Guðjónsson er byrjaður að safna liði fyrir næsta tímabil.
Bjarni Guðjónsson er byrjaður að safna liði fyrir næsta tímabil. mbl.is/Eva Björk

„Við erum rosalega ánægðir. Indriði hefði alveg getað verið lengur úti og klárað ferilinn þar. Hann er mikill KR-ingur og gríðarlegur styrkur fyrir okkur,“ sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari karlaliðs KR í knattspyrnu, eftir að Indriði Sigurðsson var kynntur sem nýjasti leikmaður liðsins í dag.

Auk Indriða eru nú í leikmannahópi KR miðverðirnir Skúli Jón Friðgeirsson, Rasmus Christiansen, Gunnar Þór Gunnarsson og Aron Bjarki Jósepsson. Bjarni gaf í skyn að þeim gæti fækkað áður en að næsta tímabil hefst:

„Við erum ágætlega „koveraðir“ hvað miðvarðastöðurnar varðar, akkúrat núna. Fyrir þjálfara er auðvitað bara betra að hafa úr fleiri leikmönnum að velja en það er langt í næsta Íslandsmót og það á mikið eftir að gerast,“ sagði Bjarni.

„Við erum fyrst og fremst ánægðir með að fá Indriða aftur heim. Hann er mikill styrkur fyrir okkur, innan vallar og fyrir utan,“ sagði Bjarni, en Indriði fór frá KR árið 1999 í atvinnumennsku, sem tvöfaldur meistari.

„Hann er búinn að spila mjög vel úti í Noregi. Hann klárar tímabilið þar og kemur svo til okkar og byrjar af fullum krafti í janúar. Hann er búinn að vera mjög góður síðustu ár, ekki kannski leikmaðurinn sem menn taka mest eftir en menn ættu kannski að kíkja á leikmennina sem spila við hliðina á honum. Þeir eru oft bestu mennirnir í sínum liðum. Það er aldrei tilviljun ef annar hafsentinn er mjög góður, hinn er þá alltaf að leggja sitt að mörkum líka. Indriði á þannig stóran þátt í velgengni Sverris [Inga Ingasonar] og fleiri,“ sagði Bjarni.

Indriði Sigurðsson er kominn aftur í KR-búninginn.
Indriði Sigurðsson er kominn aftur í KR-búninginn. mbl.is/Sindri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert