Ekki séð svona síðan í Króatíu

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. mbl.is/Golli

Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari segist treysta þeim Ögmundi Kristinssyni og Gunnleifi Gunnleifssyni fyllilega til að leysa Hannes Þór Halldórsson af hólmi gegn Tyrkjum annað kvöld, í lokaleiknum í undankeppni EM í knattspyrnu.

Uppselt er á leikinn sem fram fer á Torku Arena hér í Konya, og má búast við miklum látum á leikvanginum enda um mikinn úrslitaleik að ræða fyrir Tyrki, sem nægir jafntefli til að ná 3. sæti riðilsins og komast í umspil. Ísland er öruggt um sæti í lokakeppni EM. Lagerbäck segir að lætin komi ekki til með að trufla markvörð Íslands, hvort sem það verður Ögmundur eða Gunnleifur:

„Við erum að velja á milli Gunnleifs og Ögmundar, með fullri virðingu fyrir Róberti [Erni Óskarssyni], og þeir eru báðir mjög sterkir andlega, eins og þeir hafa sýnt áður. Ögmundur lék til dæmis mjög vel gegn Belgum ytra í æfingaleik. Þetta er ekkert vandamál fyrir þá andlega, miðað við það sem ég hef kynnst af þeim,“ sagði Lagerbäck.

Heppnir að hafa svona góða markverði

„Heimir hefur fylgst betur með Gunnleifi og hann hefur átt mjög gott tímabil, og ég hef séð mikið af Ögmundi og hann hefur staðið sig virkilega vel. Við erum heppnir að hafa svona góða markverði í dag, svo það ætti ekki að skipta máli í leiknum,“ bætti Lagerbäck við. Hann segir að þeir Heimir Hallgrímsson séu búnir að rýna vel í leikinn við Lettland á laugardag:

„Við unnum mikið í fluginu á leiðinni hingað, og förum yfir það með leikmönnunum. Við misstum allt skipulag í seinni hálfleiknum, og það er erfitt að útskýra hvers vegna. Við vildum að leikmenn kæmu sér út fyrir þægindarammann, sem fylgir því að vera komnir áfram, en eftir að hafa verið 2:0 yfir í hálfleik hlýtur það að vera eitthvað andlegt sem klikkar. Ég held að það gerist ekki meðvitað, en það er dæmigert þegar mönnum líður þægilega og allir vilja skora. Menn voru ekki í réttum stöðum, bæði í sókn og vörn, og ég hef ekki séð svona síðan í seinni hálfleiknum við Króatíu [í seinni leik HM-umspilsins 2013] held ég. Þetta var langt frá því að vera hið hefðbundna íslenska lið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert