Íslenskur sigur á Finnum í fyrsta leik ársins

Eiður Smári Guðjohnsen var fyrirliði Íslands í dag og spilaði …
Eiður Smári Guðjohnsen var fyrirliði Íslands í dag og spilaði allan leikinn. mbl.is/Golli

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu byrjaði EM-árið 2016 með sigri á Finnum þegar þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í borginni Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag. Arnór Ingvi Traustason skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik, lokatölur 1:0 fyrir Ísland.

Finnar voru meira með boltann í upphafi leiks en íslenska liðið vann sig hægt og bítandi inn í leikinn. Eftir rétt rúman stundarfjórðung kom Arnór Ingvi Traustason Íslandi yfir eftir að Hjörtur Logi Valgarðsson kom boltanum á hann með því að klobba varnarmann Finna.

Jafnræði var með liðunum eftir markið og lítið um hættulegar marktilraunir. Ingvar Jónsson hafði það nokkuð náðugt í markinu þrátt fyrir að íslenska vörnin hafi á köflum virkað nokkuð brothætt. Ekki náðu Finnar hins vegar að nýta sér það áður en flautað var til leikhlés, staðan 1:0.

Haraldur Björnsson kom í markið í síðari hálfleik í sínum fyrsta landsleik og hafði töluvert meira að gera í markinu en Ingvar. Finnar réðu ferðinni og leituðu að jöfnunarmarkinu en íslenska liðið náði að halda þeim í skefjum. Ísland fékk sömuleiðis sín færi án þess að ná að setja annað mark, en Finnar létu ólmir vaða á markið þar sem Haraldur var vel á verði.

Ekki voru fleiri mörk skoruð og því fóru Íslendingar með eins marks sigur af hólmi, lokatölur 1:0. Auk Haraldar í markinu spilaði Garðar Gunnlaugsson sinn fyrsta landsleik í dag. Ísland mætir næst heimamönnum í vináttulandsleik í Dubaí á laugardagsmorgun.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Ísland 1:0 Finnland opna loka
90. mín. Kjartan Henry Finnbogason (Ísland) á skot sem er varið +1. Nokkuð auðvelt fyrir Moisander.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert