Skrýtið að vinna leikina sem skipta máli

Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Adam Jastrzebowski / Foto Olimpik

Pétur Hreinsson í Herning

Landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason sagði sagði ansi margt vera að hjá íslenska landsliðinu í knattspyrnu í kvöld þegar það tapaði 2:1 gegn Dönum í vináttulandsleik þjóðanna í Herning í Danmörku.

„Það var svolítið mikið held ég. Það var svolítið opið á milli og auðvelt að finna lausa menn hjá Dönum. Þeir gátu einhvern veginn alltaf fundið lausnir. Sóknarlega vorum í rauninni dálítið fáliðaðir oft á tíðum. Þetta var í raun og veru bara erfitt,“ sagði Alfreð, hreinskilinn, við mbl.is.

Hann fékk tækifærið í byrjunarliðinu en hann hefur oft þurft að sætta sig við bekkjarsetu hjá landsliðinu. Hann fékk hins vegar ekki úr of miklu að moða í kvöld.

„Já, ég er alltaf ánægður að byrja. Ég reyni alltaf að gera mitt besta þegar ég spila fyrir íslenska landsliðið. Það var ekki úr miklu að moða í dag,“ sagði Alfreð.

Íslenska liðið hefur nú aðeins unnið einn leik af síðustu átta eftir að liðið tryggði sig inn á EM með jafntefli á Laugardalsvelli gegn Kasakstan. Alfreð segir það skrýtið að leikmenn standist alltaf prófið þegar mest á liggur en eigi í erfiðleikum með vináttulandsleikina.

„Það er engin afsökun fyrir því að tapa leik, við viljum vinna alla leiki, það er mjög einfalt. Þetta eru mikilvægir leikir fyrir okkur, þetta er undirbúningur fyrir EM. Það er mjög skrýtið að við vinnum leiki þegar þeir skipta máli og núna gengur ekki vel það skiptir minna máli. En allir leikir skipta máli í fótbolta og við þurfum að eiga þetta við sjálfa okkur og fara vel yfir hvað er virkilega í gangi,“ sagði Alfreð.

Mun spila á sínum gamla velli

Hann segir það alveg ljóst að íslenska liðið geti gert betur.

„Mér fannst allt mjög jafnt í fyrri hálfleik. Þeir fá nokkur skallafæri og við fáum nokkur færi líka. Við hefðum getað gert betur úr lausum boltum í teignum. Seinni hálfleikur var ekki nógu góður og við vitum það manna best sjálfir að við getum betur en þetta. Það er okkar að finna lausnir á því af hverju þetta fór ekki betur.“

Ísland mætir Grikklandi á þriðjudag og þar þekkir Alfreð sig vel, en hann er tiltölulega nýfarinn frá Olympiacos í Pireus yfir til Augsburg í Þýskalandi.

„Mér líst bara vel á það,“ sagði Alfreð um að snúa aftur til Grikklands en þar fékk hann ekki mikinn spiltíma. „Ég þekki gott fólk þar og mun spila á mínum gamla velli. Það verður bara skemmtilegt,“ sagði Alfreð hress.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert