Viljum ná EM-sætinu sem allra fyrst

Sara Björk Gunnarsdóttir í stórsókn með íslenska landsliðinu.
Sara Björk Gunnarsdóttir í stórsókn með íslenska landsliðinu. mbl.is/Golli

„Átján stig ættu að duga til að tryggja okkur farseðilinn á EM í Hollandi miðað við hvernig aðrir riðlar eru að spilast,“ sagði Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar hann tilkynnti landsliðshópinn fyrir leikina gegn Skotlandi og Makedóníu í undankeppni EM sem fram fara 3. og 7. júní.

„Draumurinn er að tryggja okkur EM-sætið á Laugardalsvellinum þann 7. júní en við viljum tryggja sæti okkar í úrslitakeppninni sem allra fyrst,“ sagði Freyr en þá leikur íslenska liðið við Makedóníu en þann 3. júní sækja Íslendingar lið Skota heim til Falkirk.

Skotar tróna á toppi riðilsins með 15 stig eftir fimm leiki en Íslendingar eru í öðru sætinu með 12 stig. Efsta liðið í riðlinum tryggir sér farseðilinn í úrslitakeppnina sem fram fer í Hollandi á næsta ári og sex lið úr riðlunum átta sem lenda í öðru sæti vinna sér einnig keppnisréttinn í úrslitakeppninni.

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag völdu landsliðsþjálfarnir Freyr og Ásmundur Haraldsson sama landsliðshóp og tók þátt í leiknum við Hvít-Rússa í síðasta mánuði.

„Við erum búin að bíða lengi eftir leiknum við Skotana og það er mikil tilhlökkun hjá okkur að mæta þeim. Skotarnir eru með hörkulið og hafa í sínum röðum eina allra bestu knattspyrnukonu heims sem er Kim Little. Ég lít svo á að möguleikar okkar í leiknum við Skotana sé 50/50. Það er mikil reynsla í liði Skotanna en fimm leikmenn í þeirra liði hafa spilað meira en 100 landsleiki,“ sagði Freyr.

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert