„Er í skýjunum“

Leik lokið - Hannes Þór Halldórsson og Guðmundur Hreiðarsson markmannaþjálfari …
Leik lokið - Hannes Þór Halldórsson og Guðmundur Hreiðarsson markmannaþjálfari landsliðsins í faðmlögum á EM. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég er bara gríðarlega ánægður með samninginn við Randers og hlakka mikið til að takast á við nýtt verkefni og nýja áskorun,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson við mbl.is en hann skrifaði í morgun undir þriggja ára samning við danska úrvalsdeildarliðið Randers eins og áður hefur komið fram hér á mbl.is.

„Ég er í skýjunum með þessa niðurstöðu. Danska úrvalsdeildin er spennandi og sterk deild, Randers er flottur klúbbur með Óla Kristjáns sem þjálfara. Randers sótti mjög hart að fá mig og liðið sýndi mér mikinn áhuga frá því það hafði fyrst samband við mig. Heildarpakkinn er því mjög góður fyrir mig og mína fjölskyldu,“ sagði Hannes Þór, sem er 32 ára gamall og hefur verið aðalmarkvörður íslenska landsliðsins síðustu árin. Hannes hefur átt afar góðu gengi að fagna og vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína með íslenska landsliðinu á nýafstöðnu Evrópumóti.

Hannes var samningsbundinn hollenska liðinu Nijmegen en hefur verið í láni hjá norska úrvalsdeildarliðinu Bodö/Glimt og leikur sinn síðasta leik með liðinu á sunnudaginn þegar það mætir Odd. Daginn eftir verður hann síðan mættur til Randers en þá mætir það Midtjylland í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar. Hannes reiknar þó ekki með að standa í markinu í þeim leik.

Lengra viðtal verður við Hannes Þór í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert