Fá lið ná að skapa færi á móti okkur

Jón Vilhelm Ákason á sprettinum í fyrri viðureign liðanna.
Jón Vilhelm Ákason á sprettinum í fyrri viðureign liðanna. Eggert Jóhannesson

„Hrikalega vel spilað af okkar hálfu. Fyrstu 30–35 mínúturnar vorum við að dómínera leikinn og svo ætluðum við að halda í 2:0 fram í hálfleik. Við komum vel fókuseraðir út í seinni hálfleik en lendum manni undir og þá bökkum við aðeins,“ sagði Garðar Gunnlaugsson, framherji ÍA, í samtali við mbl.is eftir 2:0 sigur gegn ÍBV í 12. umferð Pepsi-deildar karla á Akranesvelli í kvöld. 

ÍA átti stórgóðan fyrri hálfleik en dró sig aðeins til baka eftir því sem leið á seinni hálfleikinn. 

„Menn voru ómeðvitað að reyna að halda í þessa forystu. En þeir voru ekki að ná að opna okkur þannig að þetta var svo sem að virka.“

Garðar skoraði þrusumark utan vítateigsins. Þetta er fimmti sigur Skagamanna í röð og áttunda mark Garðars í fimm leikjum. ÍA sækir nú fast að toppi deildarinnar. 

„Þessir fjórir leikir á undan hafa verið dálítið öðruvísi. Þá vorum við að spila á móti liðum sem sækja hátt uppi. Í þessum leik vissum við að Eyjamenn myndu liggja til baka þannig að við náðum að stjórna spilinu meira, sérstaklega í fyrri hálfleik. Svo náðum við að halda þéttleikanum. Það eru fá lið, ef eitthvert, sem ná að skapa sér mörg færi á móti okkur. Það hefur gengið mjög vel upp í sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert