Tindastóll upp um deild

Tindastóll tryggði sér í dag sæti í 2. deild karla í knattspyrnu á nýjan leik með því að sigra Víði úr Garði, 2:0, í uppgjöri efstu liða 3. deildar á Sauðárkróki.

Ragnar Þór Gunnarsson og Fannar Örn Kolbeinsson skoruðu mörkin í seinni hálfleiknum og dvöl Sauðkrækinga í 3. deild var aðeins eitt ár en þeir féllu úr 2. deildinni í fyrra. Tindastóll tapaði fyrsta leiknum í deildinni í vor en hefur unnið alla þrettán leikina eftir það.

Þegar fjórum umferðum er ólokið er Tindastóll með 39 stig, Víðir 31, og síðan koma Kári og Einherji með 22 stig og Þróttur úr Vogum sem er með 20 stig á enn veika von um að fara upp. Þróttur og Einherji mætast á morgun. Víðismenn standa því eftir sem áður afar vel að vígi þrátt fyrir tapið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert