Stjarnan er skrefi nær titlinum

Ana Victoria Cate með boltann gegn KR í dag.
Ana Victoria Cate með boltann gegn KR í dag. mbl.is/Golli

Stjarnan er skrefi nær því að vinna sinn fjórða Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu eftir sigur á KR, 3:0, í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Liðið er með tveggja stiga forskot á Breiðablik fyrir lokaumferðina.

Stjörnukonur réðu ferðinni í fyrri hálfleik og voru duglegar að skjóta en þeim gekk þó illa að hitta markið. Þau skot sem þó rötuðu á markið komu Hrafnhildi Agnarsdóttur í marki KR ekki teljandi vandræðum.

KR lá mikið til baka en þær fengu þó besta færi fyrri hálfleiks. Sigríður María Sigurðardóttir slapp þá ein í gegn eftir mistök í vörn Stjörnunnar, en Berglind Hrund Jónasdóttir varði skot hennar úr algjöru dauðafæri. Staðan í hálfleik var markalaus.

Pressa Stjörnunnar hélt áfram eftir hlé og á 55. mínútu komust þær verðskuldað yfir. Eftir hornspyrnu var mikill atgangur í teignum og boltinn fór að lokum yfir línuna, þar sem varamaðurinn Sigrún Ella Einarsdóttir var að verki.

Pressa Stjörnunnar jókst enn frekar eftir markið en illa gekk að skora. Á 75. mínútu fékk Stjarnan hins vegar víti eftir að brotið var á Öglu Maríu Albertsdóttur. Katrín Ásbjörnsdóttir fór á vítapunktinn og skoraði, en Hrafnhildur var með fingur á boltanum í markinu. Staðan 2:0 og stundarfjórðungur eftir.

Katrín bætti sínu öðru marki við og þriðja marki Stjörnunnar á 81. mínútu og úrslitin ráðin. Lokatölur 3:0 og er Stjarnan með tveggja stiga forskot á Breiðablik á toppi deildarinnar fyrir lokaumferðina. Liðið fær þá FH í heimsókn og Blikar, sem unnu ÍA, mæta Val.

KR er hins vegar í fallsæti fyrir lokaumferðina, með 12 stig líkt og Selfoss og einu stigi á eftir Fylki. KR mætir föllnu liði ÍA í lokaumferðinni en Selfoss og Fylkir mætast í hinum fallslagnum.

Fylgst  var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Viðtöl koma inn á vefinn hér síðar í dag.

KR 0:3 Stjarnan opna loka
90. mín. Guðný Jónsdóttir (Stjarnan) á skalla sem fer framhjá Hættulítið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert