Alfons til skoðunar hjá sænsku meisturunum

Alfons Sampsted
Alfons Sampsted mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfons Sampsted bakvörðurinn ungi og efnilegi í liði Breiðabliks er kominn til reynslu hjá sænska meistaraliðinu Norrköping

Alfons, sem er 18 ára gamall og lék 17 leiki með Blikunum í Pepsi-deildinni í sumar, spilar með U21 árs liði Norrköping í kvöld og mun þar spila með Jóni Guðna Fjólusyni sem er koma til baka eftir höfuðmeiðsli.

„Þetta er ungur og efnilegur leikmaður sem við viljum skoða. Við höfum góða reynslu af íslenskum leikmönnum og við höldum áfram að skoða íslenska markaðinn. Þegar við vorum síðast á Íslandi fylgdumst við með Alfons og við viljum sjá hann í okkar umhverfi,“ segir Jens Gustafsson framkvæmdastjóri Norrköpin við sænska fjölmiðla.

Fleiri erlend félagslið hafa verið með Alfons undir smásjánni og eitt þeirra er þýska liðið Freiburg. Alfons á 10 leiki að baki með U19 ára landsliðinu og 15 leiki með U17 ára landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert