Leggja strax inn í bankann

Margrét Lára Viðarsdóttir í Kína.
Margrét Lára Viðarsdóttir í Kína. Ljósmynd/KSÍ

Kvennalandsliðið í knattspyrnu er komið til Chongqing í Kína þar sem það tekur þátt í fjögurra þjóða móti ásamt Kína, Danmörku og Úsbekistan. Fyrsti leikur liðsins er á móti Kína á morgun. Á laugardaginn verða Danir mótherjarnir og síðasti leikurinn verður við Úsbeka á þriðjudaginn.

„Það fer bara ljómandi vel um okkur í Kína. Við erum smátt og smátt að jafna okkur á tímamismuninum en það tók sinn tíma,“ sagði fyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir í samtali við Morgunblaðið í gær.

Mótið í Chongqing markar upphafið að undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Hollandi 16. júlí til 6. ágúst næsta sumar. Hinn 8. nóvember verður dregið í riðla, en 16 lið leika til úrslita um Evrópumeistaratitilinn.

Ætlum að verða landi og þjóð til sóma

„Jú, það má segja að með þessu móti hefjist formlegur undirbúningur okkar fyrir EM. Það er auðvitað svolítið langt í EM en við þurfum strax að fara að leggja inn í bankann. Það er frábært að fá þetta verkefni og fá hópinn saman núna. Leikirnir við Kína og Danmörku ættu að verða hörkuleikir en við rennum svolítið blint í sjóinn hvað varðar leikinn á móti Úsbekistan. Við erum með stóran hóp hérna úti og líklegt er að allar fái tækifæri til að sýna sig og sanna. Við ætlum að verða landi og þjóð til sóma,“ sagði Margrét Lára.

Nánar er rætt við Margréti Láru um komandi verkefni í Kína í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert