Katrín tryggði jafntefli gegn Kína

Íslenska kvennalandsliðið skoðar aðstæður á keppnisvellinum í Kína fyrir leik.
Íslenska kvennalandsliðið skoðar aðstæður á keppnisvellinum í Kína fyrir leik. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu gerði 2:2 jafntefli við Kína í fyrsta leik þjóðanna á fjögurra þjóða móti sem fram fer þar í landi. Katrín Ásbjörnsdóttir tryggði Íslandi jafntefli með marki fjórum mínútum fyrir leikslok.

Ísland komst yfir strax á 7. mínútu leiksins. Anna Björk Kristjánsdóttir sendi þá langan bolta úr vörninni. Markvörður Kína fór þá út úr markinu en Fanndís Friðriksdóttir komst í boltann á undan henni, fór svo framhjá henni og renndi boltanum í autt markið. Draumabyrjun Íslands.

Fanndís komst svo nærri því að tvöfalda forskot Íslands um miðjan fyrri hálfleikinn. Sif Atladóttir átti þá langt innkast inn á teiginn, boltinn barst áfram til Fanndísar sem átti hörkuskalla í þverslá þaðan sem boltinn skoppaði svo á marklínunni.

Kínverska liðið komst svo nálægt því að jafna í uppbótartíma fyrri hálfleiks en skalli úr dauðafæri á markteig hitti ekki á markið. Staðan 1:0 fyrir Íslandi í hálfleik.

Íslenska liðið átti hins vegar í vök að verjast í síðari hálfleik. Á 53. mínútu kom jöfnunarmarkið, en það skoraði Wang Shuang með hnitmiðuðu skoti í hægra hornið. Hún fékk langa sendingu inn í teiginn og lék á Glódísi Perlu Viggósdóttur áður en hún skilaði boltanum í netið.

Aðeins tveimur mínútum síðar átti Gu Yasha þrumuskot í stöngina á íslenska markinu og ekki löngu seinna átti kínverska liðið aðra tilraun í stöng. Markið hreinlega lá í loftinu og svo reyndist rétt níu mínútum fyrir leikslok.

Tang Jiali átti þá sendingu fyrir frá vinstri kanti. Guðbjörg Gunnarsdóttir í marki Íslands fór út í boltann en misreiknaði sig og varamaðurinn Yang Li hafði betur og skilaði honum í markið. Staðan 2:1 fyrir Kína, en hlutirnir áttu eftir að breytast.

Aðeins fimm mínútum seinna kom jöfnunarmark Íslands og það eftir samvinnu varamanna. Katrín Ómarsdóttir sendi fyrir, Hólmfríður Magnúsdóttir var í boltanum sem barst að lokum til Katrínar Ásbjörnsdóttur vinstra megin í teignum. Hún skilaði honum glæsilega í markið og skoraði þar með sitt fyrsta landsliðsmark í þriðja landsleiknum.

Fátt markvert gerðist eftir þetta og leikurinn fjaraði að lokum út. Lokatölur 2:2. Ísland mætir Danmörku í öðrum leiknum á laugardagsmorgun og síðasti leikurinn er svo gegn Úsbekistan á mánudagsmorguninn. Danir unnu Úsbeka fyrr í dag, 2:1.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Kína 2:2 Ísland opna loka
90. mín. Hér má sjá markið sem kom Kína yfir, 2:1. Cross from Tang Jiali and the Jiangsu's striker heads to goal! #SteelRoses pic.twitter.com/gaQq5FILoh — China Women's Team (@ChinaWFT) October 20, 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert