„Mitt besta tímabil“

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson er búinn að koma að meira en helmingi marka Swansea City í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en af 32 mörkum velska liðsins í deildinni á tímabilinu hefur Gylfi komið að 17 mörkum, hefur skorað átta mörk og lagt upp níu.

Gylfi skaust á topp stoðsendingarlistans þegar hann lagði upp eina mark Swansea í 3:1 tapi gegn meistaraefnunum í Chelsea á Stamford Bridge á laugardaginn en Daninn Christian Eriksson, fyrrum samherji Gylfa hjá Tottenham, skaut Gylfa af toppnum í gær þegar hann gaf tvær stoðsendingar í 4:0 sigri Tottenham gegn Stoke í gær. Eriksen hefur þar með lagt upp tíu mörk en Gylfi og Belginn Kevin de Bruyne hjá Manchester City 9.

,,Það var ekki hægt að búast við því að við næðum þremur stigum á móti þessu ógnarsterka liði Chelsea en það hefði verið gott að stela einu stigi,“ sagði Gylfi í samtali við Morgunblaðið í gær. Umdeilt atvik átti sér stað í stöðunni 1:1 þegar boltinn hafði greinilega viðkomu í hönd Cesars Azpilicueta þegar Gylfi vippaði boltanum í hönd Spánverjans en Neil Swarbrick dómari leiksins lokaði augunum fyrir því.

,,Mér fannst að dómarinn hefði átt að dæma víti. Dómarinn sagði að ég hefði verið of nálægt Azpilicueta en hann var greinilega með höndina útrétta og því fannst mér að við hefðum átt að fá víti. Kannski var erfitt fyrir dómarann að sjá þetta en þetta hefði getað breytt gangi leiksins. Ef hefðum komist yfir á þessum tímapunkti þá er aldrei að vita hvað hefði getað gerst,“ sagði Gylfi Þór.

Eins og áður segir hefur Gylfi verið í stærsta hlutverkinu hjá Swansea á leiktíðinni og hefur hann fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína.

,,Tölfræðin hjá mér hvað varðar mörk og stoðsendingar er frábær og ég er mjög ánægður með það. Nú er bara að reyna að bæta fleirum við á báðum sviðum. Ég held að þetta sé mitt besta tímabil og það hefur gengið sérlega vel hjá mér eftir jól og áramót. Liðinu hefur líka gengið betur og þetta helst í hendur,“ segir Gylfi, sem skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við Swansea í ágúst á síðasta ári.

Sjá allt viðtalið við Gylfa í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert